140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Nú höfum við heyrt það undanfarnar vikur að það eigi að hverfa frá séreignarstefnunni í húsnæðismálum og búa til einhverja nýja hugsun, og ef ég skil þessa hugsun rétt sem ég ætla ekkert að fullyrða að ég geri, þá snýst hún um að reyna að ýta fólki meira inn í leigukerfi eða eitthvert slíkt kerfi. Það er ekkert nema gott um leiguíbúðir og leigukerfi að segja. Ég hef hins vegar efasemdir um að það eigi að hverfa frá séreignarstefnunni. Ég held að það sé ágætt að blanda þessu þokkalega saman og gera umhverfið þannig úr garði að þeir sem treysta sér til og geta fjárfest í húsnæði geri það. Þar verður gjarnan til sparnaður fólks, sem því miður hefur reyndar lent í áföllum undanfarin ár og undanfarin missiri eftir bankahrunið. Reyndar þykir mér sorglegt hve lítið er fjallað um þessa eign sem er að brenna upp hjá mörgum út frá því að þetta er sparifé fólks og líka lífeyrir því að margir hafa hugsað sér þetta sem uppbót á lífeyri sinn þegar að því kemur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeirri hugmyndafræði að hverfa frá séreignarstefnunni, eins og hefur verið sagt, og hvað eigi þá að taka við. Er skynsamlegra að fara þá leið að blanda þessu áfram saman þó svo að menn reyni að styrkja leiguþáttinn með einhverju móti? Íbúðalánasjóður getur spilað og á að spila að mínu viti mjög stórt hlutverk á félagslega húsnæðislánamarkaðnum og í báðum þessum kerfum eða leiðum.