140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það séu vonandi flestir sammála um að það sé mikilvægt að hafa val þegar kemur að því að koma sér þaki yfir höfuðið eða finna sér húsnæði. Það val getur að sjálfsögðu verið margs konar, það getur verið val milli þess, ef fólk á peninga, við skulum bara orða það þannig, að setja þá í fasteign og fjárfesta, búa til sparnað þar, eða nota peninginn í annað og leigja.

Svo er hitt valið sem þarf líka að vera til staðar fyrir þá sem hafa eitthvað minna á milli handanna en vilja gjarnan vera í eigin húsnæði að mynda sér einhverja eign þótt hægt gangi. Þar verður Íbúðalánasjóður að mínu viti að vera til staðar eða sambærileg stofnun.

Ef við ræðum áfram þessi sparnaðar- og lífeyrismál þá þekki ég mörg dæmi um að fullorðið fólk hafi farið úr stórum eignum, átt einhverja eign í húsnæðinu, selt það og notað svo peninginn, hagnaðinn — einhver gæti mögulega kallað það umframhagnað — til að bæta við þann lífeyri sem það fær. Þótt lífeyriskerfið okkar sé ágætt er það því miður alls ekki alfullkomið og hefur kannski ekki alltaf gengið nógu vel í því öllu saman. Fólk hefur því verið að nota þessa fjármuni til að lyfta upp tekjum sínum og gera lífið aðeins bærilegra.

Ég hef áhyggjur af því að það sé of lítið horft á þetta þegar við ræðum um stöðu fólks sem búið er að vinna fyrir samfélagið alla sína ævi, vinna baki brotnu, hvernig sem sú atvinna var, og á kannski einhverja aura sem það vill nota til þess að gera líf sitt bærilegra þegar það er komið á efri ár. Þessar eignir geta líka brunnið upp. Hitt er að við eigum ekki að draga úr fólki að horfa til framtíðar og fara sömu leið og jafnvel foreldrar þess. (Forseti hringir.) Mér finnst tónninn og stefnan hér á landi kannski hafa verið í þá átt, því miður.