140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi félagslega þáttinn þá skiptir máli að við finnum leiðir til að tryggja hann, hvort sem er í gegnum Íbúðalánasjóð eða aðila á markaði. Ég ætla ekki að draga dul á það að ég treysti líka aðilum á markaði til að sinna þessu félagslega kerfi ef þeim er settur ákveðinn rammi og ákveðnar forsendur og ríkisvaldið kemur að. En ég segi ekki að það sé eina leiðin. Ég vil ítreka það að mér hefur hugnast það frekar en hitt að hafa Íbúðalánasjóð sem ákveðið félagslegt úrræði, úrræði sem tryggir að fólk sem hefur kannski ekki mikið á milli handanna geti þó eignast þak yfir höfuðið. Ég held að það sé mikilvægt að við sameinumst að minnsta kosti um þá hugsun.

Varðandi sparnað þá kemur hv. þingmaður hér inn á risamál í rauninni og er tilefni til að við biðjum einfaldlega um sérstaka umræðu um það hvert sparnaður fólks er að fara og hvort fólk hafi almennt val um það í hvaða lífeyrissjóð það greiðir. Við höfum séð dæmi um að sparnaður fólks sem hefur starfað hjá hinu opinbera sé tryggari en sparnaður fólks á hinum almenna vinnumarkaði. Er það jafnræði? Ég efast um það. Fyrir utan hina gríðarlegu skattlagningu. Fólk er að byggja upp til framtíðar, kemur sér upp húsnæði og safnar fjármagni, selur síðan húsnæðið á efri árum til þess að hafa það notalegra o.s.frv., en þá er það skattlagt — ég ætla ekki að segja í þessum ræðustól til andskotans — fram úr hófi vegna þeirrar skattstefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur markað. Það er ljóst að sá hópur sem ekki síst hefur orðið fyrir því að borga í auknum mæli svonefndan auðlegðarskatt er fólk sem komið er á efri ár og hefur byggt upp ákveðinn sjóð eða sparnað sem það hefur allan tímann og allt sitt líf ætlað sér að nýta á (Forseti hringir.) efri árum.

Íbúðalánasjóður getur gert ákveðna hluti en markmiðin verða að vera skýr. Í þessu frumvarpi finnst mér þau ekki nægilega skýr.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn að gæta orða sinna í ræðustól.)