140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Skoðanir eru skiptar um ýmis málefni innan Sjálfstæðisflokksins. Eins og hv. þingmaður veit tilheyri ég til dæmis minni hluta í stóru máli innan Sjálfstæðisflokksins en mér er samt frjálst að hafa þær skoðanir.

Varðandi Íbúðalánasjóð er ljóst að ég sat í ríkisstjórn með þeim flokki sem hv. þingmaður er í og verður í, Framsóknarflokknum. Stefna þeirrar ríkisstjórnar var alveg skýr, það var alls ekki ætlunin að einkavæða Íbúðalánasjóð þó að ákveðinn hópur innan flokksins hafi þær skoðanir, og eðlilegt að sá hópur setji þær fram. Við reyndum miklu frekar að undirbyggja ákveðna starfsemi Íbúðalánasjóðs en hugsanlega má segja að á þeim tíma hafi ákveðin mistök verið gerð varðandi uppbyggingu sjóðsins.

Ég tel að við hefðum betur tekið skarpari umræðu um hið raunverulega hlutverk Íbúðalánasjóðs til skemmri og lengri tíma. Ég reyndi að koma því á framfæri í ræðu hér áðan og í fyrra andsvari að það skiptir máli að við tryggjum úrræði, félagsleg úrræði, fyrir þau svæði landsins sem eiga erfiðara með aðgang að fjármagni til íbúðarkaupa eins og er víða á landsbyggðinni. Við þurfum að tryggja að þeir einstaklingar og þær fjölskyldur standi frammi fyrir ákveðnu vali, valkosti til að koma sér upp húsnæði. Þannig hef ég viljað nálgast þetta. Við verðum að viðurkenna að við verðum að hafa leiðir, aðferðafræði sem tryggir að þeir sem hafa það erfiðara fjárhagslega af ýmsum sökum geti fjárfest í húsnæði.

Ég tilheyri þeim hópi Sjálfstæðisflokksins sem hefur viljað leggja áherslu á valfrelsi, í menntamálum, í heilbrigðismálum og líka hvað varðar Íbúðalánasjóð.