140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[18:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu þess hóps sem ekki hefur haft aðgang að fjármagni á hinum frjálsa markaði. Á meðan fjármagn flæddi út úr öllum bönkum og auðvelt var að fá lán var í mörgum hinum dreifðu byggðum landsins einungis hægt að fá fjármagn til að kaupa eða byggja íbúðarhúsnæði hjá Íbúðalánasjóði. Þetta var á árunum 2006–2008. Því er gríðarlega mikilvægt að við hugum að umgjörð Íbúðalánasjóðs, að við horfum til framtíðar og viðurkennum, rétt eins og segir í minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að Íbúðalánasjóður gegnir lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og að ekkert megi gera til að veikja það með nokkrum hætti.

Af því að hv. þingmaður svaraði því ekki alveg skýrt varðandi framtíð Íbúðalánasjóðs langaði mig að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann sjái framtíð Íbúðalánasjóðs fyrir sér kannski að fimm til tíu árum liðnum.

Eins og ég kom inn á í fyrra andsvari mínu þá voru ákveðin öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem vildu klárlega einkavæða Íbúðalánasjóð á sínum tíma. Þá leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmaður telur að það sé minnihlutahópur innan Sjálfstæðisflokksins sem vilji einkavæða Íbúðalánasjóð rétt eins og það er minnihlutahópur innan Sjálfstæðisflokksins sem vill ganga í Evrópusambandið.