140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

peningamálastefna Seðlabankans.

[10:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær hækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína um 0,25% og það segir sína sögu að það virtist litlum tíðindum sæta enda framhald af því stýrivaxtahækkanaferli sem hefur staðið nánast alveg þetta ár. Almennt er reiknað með því að áframhaldandi hækkun verði á stýrivöxtum Seðlabankans á næstunni. Þeir verði í árslok 6% og spáaðilar gera ráð fyrir að þeir geti orðið 6,5% að meðaltali á næsta ári. Þetta vekur auðvitað með manni margar spurningar, meðal annars í ljósi þess að fyrr var talað um að hér væri hafið varanlegt stýrivaxtalækkunarferli. Hæstv. forsætisráðherra boðaði til dæmis að í árslok 2009 yrðu stýrivextirnir sennilega 2–3%. Nú sjáum við hins vegar í hvað stefnir. Við þekkjum auðvitað þetta samhengi milli peningamálastefnu Seðlabankans og ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem peningamálastefnu Seðlabankans er ætlað að reyna að halda aftur af útgjaldavexti í samfélaginu.

Þá vaknar spurning sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um: Hver er afstaða hæstv. forsætisráðherra til peningamálastefnunnar sem birtist okkur í þeim vaxtahækkunum sem hafa orðið á þessu ári og nú síðast í gær?

Önnur spurning: Styður hæstv. forsætisráðherra peningamálastefnu Seðlabankans? Það er ákaflega mikilvægt að skýrt svar fáist við þessu. Er þess vegna hæstv. forsætisráðherra sáttur við þær vaxtahækkanir sem Seðlabankinn hefur framkvæmt á þessu ári síðast núna í gær með hækkun stýrivaxta um 0,25%?