140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

peningamálastefna Seðlabankans.

[10:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ákvörðun Seðlabankans í gær endurspeglar þær verðbólguvæntingar sem Seðlabankinn hefur um framtíðina. Þær eru greinilega ekki í samræmi við þá óskhyggju sem birtist í málflutningi hæstv. forsætisráðherra. En ég saknaði þess mjög að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki þeirri grundvallarspurningu sem svar verður að fást við út úr þessari umræðu. Spurningin var þessi: Styður hæstv. forsætisráðherra peningamálastefnu Seðlabankans? Hún birtist í þessum vaxtahækkunum og það getur ekki verið þannig að við ljúkum þessari umræðu öðruvísi en hæstv. forsætisráðherra segi okkur hvort hún styðji þessa stefnu. Ef hún ekki gerir það þá sætir það miklum tíðindum og hæstv. forsætisráðherra verður að svara þessari spurningu ákaflega skýrt.

Í öðru lagi: Hæstv. forsætisráðherra vísaði til ákvarðana Seðlabankans og nú vil ég spyrja einfaldrar spurningar sem ég trúi ekki öðru en hæstv. forsætisráðherra svari mjög skýrt: (Forseti hringir.) Telur hæstv. forsætisráðherra að vaxtahækkunin í gær og vaxtahækkanirnar fyrr á árinu hafi verið rétt eða röng ákvörðun af hálfu (Forseti hringir.) Seðlabanka Íslands? Þessu verðum við líka að fá skýrt svar við. Annars verður eftir því tekið.