140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

fjölgun ferðamanna og stækkun Keflavíkurflugvallar.

[10:39]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra varðandi fund Isavia sem haldinn var 7. júní sl. þar sem komu fram skipulagsáform á Keflavíkurflugvelli um nýja flugbraut og stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Þetta er gert með það í huga að hægt sé að taka við enn fleiri ferðamönnum á háannatíma ferðamannatímans. Undir venjulegum kringumstæðum væri þetta ef til vill allt í lagi en nú þegar er gert ráð fyrir yfir 600 þúsund ferðamönnum til Íslands á þessu ári og eðlileg stefna ætti að vera að dreifa þeim frekar yfir árið heldur en fjölga þeim á háannatíma. Allir þeir sem hafa ferðast um landið og náttúruperlur þess á sumrin sjá að það er orðið yfirfullt af erlendum ferðamönnum í júní, júlí og ágúst.

Nú er það stefna hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni að fjölga ferðamönnum og þeir tala fjálglega um milljón ferðamenn á ári og hafa gert undanfarin ár. Ég spyr því hæstv. ráðherra samgöngumála: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem heyrir undir ráðherrann? Styður ríkisstjórnin og samgönguráðuneytið stefnu Isavia og Samtaka ferðaþjónustunnar um stórfellda stækkun á Keflavíkurflugvelli og flugstöðvarinnar, þ.e. nýja flugbraut og nýja stóra flugstöð svo að hægt sé að taka inn fleiri ferðamenn á háannatíma í þegar yfirfullu landi frekar en að beita sér fyrir stefnu um að dreifa þeim frekar yfir árið?