140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

fjölgun ferðamanna og stækkun Keflavíkurflugvallar.

[10:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er almennt sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í máli hv. þingmanns að mun æskilegra er að dreifa komu ferðamanna yfir allt árið eins og kostur er í stað þess að þeir komi á afmörkuðum tíma eins og reyndin var fyrr á tíð. Þetta hefur verið að færast til betri vegar.

Varðandi spurningu hans sérstaklega, um hugmyndir um nýjar flugbrautir og bætta aðstöðu, þá vil ég að óathuguðu máli ekki tjá mig nákvæmlega um það hér og nú. Sjálfsagt er að kynna það. Hitt finnst mér vera verðugt umræðuefni og umhugsunarefni fyrir okkur á þinginu, eins og hv. þingmaður nefndi, með hvaða hætti við getum stuðlað að því að koma ferðamanna dreifist sem jafnast yfir landið. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er áhyggjuefni hvort landið þolir það álag sem er af gríðarlegri aukningu ferðamanna.

Það er nefnilega þannig með landið okkar að hægt er að ofbeita á það af öðrum en sauðkindinni, það á líka við um ferðamenn. Þeir geta orðið svo margir að náttúran ræður ekki við það og ekki samfélagið heldur. Þarna þurfum við að sýna fyrirhyggju, ég tek undir þau sjónarmið.