140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

fjölgun ferðamanna og stækkun Keflavíkurflugvallar.

[10:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þessi plön komu mér líka rækilega á óvart. Ég sá litla fréttatilkynningu um þetta í blaði í síðustu viku og fór svo inn á vef Isavia í gær og sá þá einmitt þessi stórfelldu áform, heila nýja flugbraut á Keflavíkurflugvelli og stórfellda stækkun flugstöðvarinnar.

Hvað ferðamannaþjónustu varðar, þegar ferðamenn á Spáni voru orðnir jafnmargir og landsmenn á einu ári ákváðu stjórnvöld þar að segja: Stopp! Við förum ekki lengra en þetta. Nú eru ferðamenn á Íslandi orðnir tvöfalt fleiri en landsmenn og stefnir í að þeir verði jafnvel meira en þrefalt fleiri. Þess vegna finnst mér mjög brýnt að bæði Alþingi og stjórnvöld önnur móti sér stefnu í því máli að það verði tryggt með einhverjum hætti að ferðamönnum á Íslandi á háannatíma fjölgi ekki meira en nú er. Við vitum öll sem höfum komið til dæmis að Gullfossi eða í Landmannalaugar að sumri til að það er ekki lengur aðgengilegt fyrir venjulegt fólk að koma á þessa staði vegna þess að þar eru þúsundir manns fyrir og landið þolir ekki fleiri ferðamenn á háannatíma. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að skoða þessi áform mjög rækilega og kynna stefnu fyrir þinginu á komandi þingi.