140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

þjónustusamningur við Reykjalund.

[10:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um þjónustusamning við Reykjalund. Það er rétt að þar hefur ekki verið gengið frá samningi og ástæðan er einfaldlega sú að ágreiningur er um upphæðir. Það eru fjárlög sem ráða hvaða heimildir við höfum til að gera samninga. Ég hef ekki komið beint að þessari vinnu undanfarið en hef þó átt viðræður á fyrri stigum við starfandi forstöðumann á Reykjalundi. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að þar er um að ræða gríðarlega mikilvæga stofnun sem gegnir mikilvægu hlutverki. Í því felst að ég tel að það eigi að gera áframhaldandi samning við Reykjalund og undirstrika að sú þjónusta sem þar er þurfi að vera þar áfram. Það þýðir hins vegar ekki að hægt sé að ganga að hverju sem er varðandi samninga. Það hefur verið þrengt að opinbera kerfinu, illu heilli, vegna nauðsynlegra hluta. Við höfum farið í harða aðlögun varðandi heilbrigðisstofnanir, með allt að 19–20% raunlækkun hjá Landspítalanum, og við getum auðvitað ekki undir neinum kringumstæðum á sama tíma ætlast til að svipuð hagræðing verði á þeim stofnunum sem við erum með þjónustusamninga við og þess vegna verðum við auðvitað að ná samningum sem miða við þau fjárlög sem eru sett upp á hverjum tíma.

Eins og ég segi, ég þekki ekki stöðuna á málinu akkúrat þessa klukkutímana eða þessa dagana en markmiðið er að sjálfsögðu að vera með samninga. Því miður hefur komið í ljós ítrekað og það á í sjálfu sér ekkert sérstaklega við um Reykjalund að aðilar sem hafa verið á þjónustusamningum hjá Sjúkratryggingum hafa í rauninni nýtt sér það að verða utan samninga og þar með skapað sér sjálfstæða möguleika á því að vera með gjaldtökur, samanber sérgreinalækna. Þetta á ekki við Reykjalund en ég nefni þetta hér vegna þess að það lýsir í sjálfu sér í hvaða stöðu hið opinbera kerfi er þegar kemur að þeim miklu hagsmunum sem þarna eru þar sem sjúklingar eru undir eða hagsmunir þeirra og hagur þeirra.