140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir til bjargar Spáni og vandi evrunnar.

[10:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú niðurstaða sem varð á dögunum að ákveðið var að veita Spáni neyðarlán var af forustumönnum Spánar kallaður sigur evrunnar. Nú er auðvitað að koma í ljós, virðulegi forseti, að um ekkert slíkt er að ræða. Menn sjá að vandi evrunnar verður ekki leystur með því einu saman að henda peningum á bálið. Þetta mun kalla á breytingar á Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að stjórnvöld, undir hans forustu, eru að vinna að viðbragðsáætlun við því ef hin sameiginlega mynt Evrópu hrynur. Sú staða er komin upp að bæði hér á landi og annars staðar eru menn að vinna slíkar áætlanir. Seðlabankastjóri Evrópu hefur lýst því yfir að myntin í núverandi formi sé ekki sjálfbær. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra:

1. Er hæstv. forsætisráðherra sammála hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að nauðsynlegt sé að búa Ísland undir það að þessi mynt geti hrunið, það séu það miklar líkur til þess að til slíkra ráðstafana þurfi nú að grípa?

2. Er hæstv. forsætisráðherra enn þeirrar skoðunar að það sé styrkleikamerki fyrir Ísland að sækja nú um aðild að þessari sömu mynt? Að það sé metið þannig af öðrum sem á okkur horfa að það sé styrkleiki okkar á þessum tímum að við séum að sækja um aðild að mynt sem við á sama tíma erum að vinna að viðbragðsáætlunum um hvernig með eigi að fara ef sú sama mynt hrynur?