140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir til bjargar Spáni og vandi evrunnar.

[11:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef góðan skilning á því að hv. þingmaður komi fram með þessa fyrirspurn vegna þess að við höfum auðvitað öll áhyggjur af stöðunni í Evrópu. Það er fullt tilefni til að fylgjast vel með þessu máli. Það hefur verið rætt ítarlega í ríkisstjórn, í ráðherranefnd og með Seðlabankanum og í fjármálastöðugleikanefnd, þannig að við fylgjumst mjög grannt með. Það hefur komið fram að það er engin bráðahætta fyrir Ísland, enda er landið vel varið með sterkan gjaldeyrisforða og við erum líka með gjaldeyrishöft. En það er auðvitað ljóst að frekari hremmingar í Evrópu munu hafa áhrif hér, ekki síst á mörkuðum okkar, í útflutningi, í ferðaþjónustu og geta haft áhrif á erlendar fjárfestingar, en við hljótum öll að binda vonir við að þessu fari að linna. Sú aðgerð sem farið var í á Spáni virðist ekki hafa dugað mjög vel nema í fyrstu og ég tek undir að það er ekki hægt að kalla það sigur evrunnar.

Viðbragðsáætlun er í þessu máli sem öðrum málum. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hittast reglulega og eru mjög á vakt fyrir öllu sem getur skeð og getur varðað einhverja hættu fyrir fjármálakerfi okkar. Ég sé enga ástæðu fyrir því að láta einhvern bilbug á okkur finna vegna umsóknarferlisins. Við hljótum að binda vonir við að þetta sé tímabundið vandamál sem gangi yfir eftir einhvern tíma. Ég held því að við eigum ekki að vera með neina uppgjöf, við sem viljum (Forseti hringir.) að Ísland gangi í Evrópusambandið og að hér sé tekin upp evra.