140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir til bjargar Spáni og vandi evrunnar.

[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sem við þurfum fyrst og fremst að hafa alvarlegar áhyggjur af sé hvort við þurfum að búa í mörg ár í viðbót við krónuna. Ég held líka að það sé mikið í húfi ef ekki næst samstaða milli flokkanna í nefndinni sem skoðar það mál að gera breytingar þar á, framtíðarmöguleikar Íslands velta mikið á því hvaða afstaða er tekin í því máli. Sem betur fer eru nefndir að skoða það.

Ég held að við höfum tíma fyrir okkur til að skoða hvaða þróun verður í Evrópusambandinu og sjá hvort það sé að breytast eins og hv. þingmaður nefndi. Við tökum það auðvitað allt með inn í myndina þegar við metum hagsmuni Íslands í málinu og þegar samningar eru í höfn. Þá tökum við með í reikninginn hvaða breytingar hafa orðið eða eru í augsýn á Evrópusambandinu. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur fyrir fram af þessu máli.