140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður velti því fyrir sér hver yrðu örlög Íbúðalánasjóðs ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi þar einhverju um ráðið. Þá vil ég bara rifja það upp að núgildandi lög um Íbúðalánasjóð voru sett undir stjórnarforustu Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Það segir auðvitað sína sögu.

Í fyrsta lagi. Ég held að ógnin sem steðjar núna að Íbúðalánasjóði sé ekki pólitísk ógn í sjálfu sér. Vandi Íbúðalánasjóðs er sá að hann hefur farið halloka í samkeppni við bankana. Honum hefur enn ekki tekist að bjóða fram óverðtryggð lán sem eru mjög vinsæl um þessar mundir. Við sjáum að mjög stór hluti af þeim íbúðalánum sem fólk hefur verið að taka hafa verið óverðtryggð lán, en sérstök umræða er síðan um það hvort það sé skynsamleg eða æskileg þróun.

Í öðru lagi hafa vextir Íbúðalánasjóðs, a.m.k. á tímabilum, verið hærri en vextir bankanna. Ég hygg að það sé til dæmis núna um þessar mundir.

Í þriðja lagi vil ég segja að vegna þess að sú staða er uppi sem ég nefndi fyrst varðandi óverðtryggðu lánin er Íbúðalánasjóður í þeirri stöðu að meira er greitt inn í hann en svarar nýjum útlánum eftir því sem kom fram í umræðunni í gær og segir auðvitað það að áhugi þeirra sem eru að taka lán beinast fremur að því að taka lán í bönkunum en í Íbúðalánasjóði. Það helgast örugglega af því að áhugi er um þessar mundir á óverðtryggðum lánum en Íbúðalánasjóður hefur enn ekki getað boðið þau fram þó að hann muni væntanlega gera það þegar líður á næsta haust.

Loks vil ég nefna það sem er kjarni þess sem kemur fram í breytingartillögu þeirri sem ég hef flutt, þ.e. að Íbúðalánasjóði er með lögum settar svo þröngar skorður að hann getur ekki boðið upp á þau úrræði sem ríkisbankinn, Landsbankinn, hefur boðið fram vegna þess að hann hefur auðvitað miklu meira svigrúm til að bjóða fram slík úrræði.

Það sem vakir fyrir mér með þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni er einfaldlega það að tryggja að Íbúðalánasjóður geti verið samkeppnisfær á þessum markaði með því að geta boðið lántakendum sínum sömu úrræði varðandi skuldirnar eins og verið er að (Forseti hringir.) bjóða af öðrum bönkum, og þá alveg sérstaklega Landsbankanum. Þessi breytingartillaga er í raun og veru kópering á (Forseti hringir.) landsbankaleiðinni.