140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði það, og ég dreg svo sem ekki í efa að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tilheyrir ekki þeim hópi, að það væru ákveðin öfl og hefðu verið á sínum tíma innan Sjálfstæðisflokksins sem hefðu viljað einkavæða Íbúðalánasjóð. Það kom fram hjá hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur í gær þar sem hún staðfesti að ákveðin öfl væru innan flokksins sem vildu það. Ég fagna því hins vegar ef þau öfl eru ekki ríkjandi innan flokksins í dag. Það er mjög ánægjulegt. Ég fagna því að ég og hv. þingmaður deilum skoðunum varðandi mikilvægi Íbúðalánasjóðs.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á, þ.e. þann vanda sem Íbúðalánasjóður á við að etja varðandi vexti, óverðtryggð lán og þá staðreynd að meira er greitt inn en er tekið af útlánum úr Íbúðalánasjóði. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur þingmenn að bregðast við og styrkja stöðu sjóðsins ef við ætlum að halda Íbúðalánasjóði á samfélagslega grunni. Það gerum við meðal annars með breytingartillögu sem hv. þingmaður hefur lagt fram, og ég sagði að ég mundi styðja, og með breytingartillögu sem hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur einnig lagt hér fram. Það gerum við líka með tillögum eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til, þ.e. að draga úr eða fella niður kostnað við breytingar á lánum sem fólk er með hjá Íbúðalánasjóði. Það eru því ótal leiðir sem okkur eru mögulegar í þessu efni. En grunnurinn að því að við vinnum að þeirri vegferð og höldum henni áfram er að við viðurkennum mikilvægi Íbúðalánasjóðs til framtíðar. Ég sé það á tillögu hv. þingmanns að hann gerir það.