140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður rifjar hér upp stjórnarsetu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og þá tíð er hæstv. forsætisráðherra sá um málefni Íbúðalánasjóðs. Sá sem hér stendur ætlar ekki að blanda sér inn í þær umræður, enda þekkir hv. þingmaður það betur en ég.

Ég og hv. þingmaður erum sammála um það að mikilvægt er að bæta úrræði sjóðsins. Tillögur hafa verið lagðar fram í þá veruna bæði frá hv. þingmanni og Framsóknarflokknum sem hefur lagt fram margar tillögur undir forustu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. En grunnurinn að þessu öllu er að við horfum á þetta út frá þeirri staðreynd að við ætlum að láta Íbúðalánasjóð halda áfram að eflast og dafna og það sé grunnforsendan. Þegar við fjöllum um málefni sjóðsins og leitum að mögulegum leiðum sé það út frá því að Íbúðalánasjóður starfi áfram. Það hefur oft og (Forseti hringir.) tíðum skort kannski á viljann til þess hjá mörgum hv. þingmönnum.