140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær spurningar sem hún kom með.

Já, það er mjög brýnt að Íbúðalánasjóður starfi áfram eins og ég benti á í ræðu minni. Varðandi það hvort skynsamlegt sé að flytja Íbúðalánasjóð frá velferðarráðuneyti yfir til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki ályktað um neitt slíkt eða haft neina stefnu til breytingar í þá veru. Hann er í dag undir velferðarráðuneytinu. Ég held að það sé ekkert sem kalli á neinar breytingar á því.

Þegar kemur að athugasemdum gagnvart því hvernig sjóðurinn starfar er mjög mikilvægt að þegar við hugum að því hvernig við ætlum að bregðast við þeim athugasemdum sé það gert á þeim forsendum að sjóðurinn eigi að starfa áfram á þeim grunni sem hann hefur gert.

Ég vil rifja það upp eins og ég gerði í ræðu minni að á góðæristímanum og á árunum fyrir hrunið var sú staðreynd dapurleg að ef fólk ætlaði að ráðast í framkvæmdir eða nýbyggingar á strjálbýlli svæðum var það oft og tíðum eingöngu Íbúðalánasjóður sem var tilbúinn til að fjármagna slíkt, húsnæðiskaup eða byggingar á húsnæði. Ég held að það meðal annars undirstriki mikilvægi sjóðsins. Ég held að það hefði ekki verið gert nema af því hann hafði þennan félagslega grunn og þá félagslegu hugsun sem sjóðurinn byggir á.

Ef við ætlum að fara að taka umræðu um framtíðarskipan og breytingar á Íbúðalánasjóði ítreka ég það sem ég sagði áðan að gríðarlega mikilvægt er að ætli menn af stað í slíka vegferð sé það gert á þeim forsendum og með það að markmiði að Íbúðalánasjóður starfi áfram á þeim félagslega grunni, en ekki sé farið í þá (Forseti hringir.) umræðu til þess að reyna að fá þann botn í niðurstöðuna að skynsamlegt væri að leggja sjóðinn niður.