140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þegar minnst er á skuldavanda heimilanna og þegar minnst er á tillögur ríkisstjórnarinnar í því efni er ekki laust við að maður skynji að hæstv. ráðherra verði aðeins æstur. Samfylkingin talaði á sínum tíma gríðarlega mikið um að koma til móts við skuldsett heimili, afnema verðtrygginguna og fleira í þeim dúr, talaði um skjaldborg, brýr og fleira í því efni. Að tala síðan um það þegar þingmenn koma hér og ræða mál, lög nr. 44/1998, um húsnæðismál, þá sé það hluti af málþófi að leggja fram breytingartillögur í þá veru að koma til móts við skuldsett heimili og gera Íbúðalánasjóði kleift að bjóða upp á sömu lausnir og ríkisbankinn, Landsbankinn, er að gera.

Frú forseti. Það er ágætt að það fari hér í þingbækur og að þeir sem horfa verði vitni að því að þetta sýnir okkur svart á hvítu að vilja skortir til þess að taka á skuldavanda heimilanna. Þegar hæstv. ráðherra talar um hvernig eigi að fjármagna þetta er kannski ágætt að rifja það upp þegar hæstv. ráðherra var formaður fjárlaganefndar á sínum tíma og ætlaði að leggja hundruð milljarða á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave. Það var ekki spurt að fjármögnun þegar það var annars vegar.

Af hverju er það svo þegar talað er um skuldsett heimili landsins, þegar talað er um tillögur, breytingartillögur í þá veru að bjóða upp á sambærileg kjör og ríkisbankinn, að þá er það orðið málþóf hjá hæstv. ríkisstjórn? En þegar til stóð að leggja til hundruð milljarða kröfu á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave, þá var það allt í góðu lagi. Þetta er auðvitað málflutningur sem stenst ekki nokkra skoðun hjá hæstv. velferðarráðherra.