140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Því miður gefst afskaplega stuttur tími til að ræða þetta viðamikla mál. Get ég fengið — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill ítreka beiðni sína til hv. þingmanna og ráðherra um að hér skuli haldinn einn fundur í salnum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur orðið.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Ég var þar kominn að ég ætlaði að ræða um styrki til húsnæðis. Þeir eru í ýmsu formi. Við erum með Íbúðalánasjóð sem veitir ríkisábyrgð á lán. Styrkurinn felst í ríkisábyrgð og er til nánast allra Íslendinga óháð tekjum og eignum. Síðan erum við með vaxtabætur, það gerir kröfu til þess að menn skuldi nógu mikið, og eru þær háðar tekjum og ýmsum öðrum þáttum. Svo erum við með húsaleigubætur sem eru aðallega fyrir fólk sem býr eitt, því þar sem margir búa mega tekjur heimilisins í heild sinni ekki fara yfir ákveðin mörk og stórar fjölskyldur fá yfirleitt aldrei húsaleigubætur. Svo erum við með heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun. Við erum með sérstök lán til stúdenta sem búa einir. Þannig að verið er að bæta húsnæðiskostnað einstaklinga, fjölskyldna og heimila út um allt kerfið.

Nú vill svo til, frú forseti, að komið hefur fram nýtt húsnæðisbótakerfi sem hv. þm. Lúðvík Geirsson, formaður vinnuhóps, skilaði fyrir mánuði. Ég hélt að menn tækju mið af því í þessum umsögnum þegar menn eru að ræða um stærsta banka, húsnæðisbanka á Íslandi, sem er opinber banki og ESA er að gera athugasemdir við.

Ég legg til, frú forseti, og ég vil undirstrika það, ég legg til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður, annaðhvort verði hann lagður niður eða seldur, sem er kannski betra. Hann verði seldur ef einhver vill kaupa hann, annars verði hann lagður niður og lánasafnið selt einhverjum til umsýslu. Vegna þess að hann skekkir allt kerfið. Niðurstöður rannsóknar ESA eru einmitt um það að þessi banki er eins og fíll í postulínsbúð, innan um hina bankana og nýtur ríkisábyrgðar, en er jafnframt að mínu mati eins og risaeðla. Hann er eins og risaeðla í postulínsbúð vegna þess að hann fékk heimild til að taka upp óverðtryggð lán. Er það komið í gagnið? Ónei. Risaeðlan er að hugsa. Það gerist ósköp lítið.

Á meðan eru bankarnir að bjóða óverðtryggð lán og sífellt betri með tryggingum o.fl. Hættan er því sú að ríkið eigi eftir að dæla enn meiri peningum í Íbúðalánasjóð en það hefur gert. Það er ein skekkjan í kerfinu.

Ég hafði vænst þess að formaður nefndarinnar sem ég nefndi áðan, húsnæðisbótanefndarinnar, hv. þm. Lúðvík Geirsson, mundi muna eftir því þegar hann skrifaði nefndarálit um breytingartillöguna sem ríkisstjórnin flytur. En ekki er orð um það, ekki orð um það að nýtt kerfi sé að koma sem eigi að taka við væntanlega af Íbúðalánasjóði sem veitir ríkisábyrgð, þá væntanlega af vaxtabótum, þá væntanlega af húsaleigubótum, það taki við af öllum þessum bótum. Og ég hefði viljað hvetja hv. þm. Lúðvík Geirsson og hæstv. velferðarráðherra, Guðbjart Hannesson, til dáða, ég hvet hann til dáða til að gera eitthvað, fari að vinna að því að koma með (Gripið fram í.) heildstæða lausn á húsnæðismálum heimilanna, sem mér lýst vel á. Það er kerfi sem ég lagði til fyrir um 15 árum í þingsályktunartillögu hér á Alþingi, að koma með húsnæðisbætur í staðinn fyrir allt þetta kraðak.

En hvað gerist? Það er verið að púkka upp á gamla kerfið í þessu frumvarpi. Og nefndarálitið frá meiri hluta hv. velferðarnefndar gerir ekkert annað en stagbæta flíkina í staðinn fyrir að koma með nýja flík, frú forseti. Nýja flík sem fólk skilur og er réttlátt og sanngjarnt kerfi þannig að hátekjufólk með milljón á mánuði sé ekki að fá vaxtabætur, sex manna fjölskylda sem leigir húsnæði fái ekki húsaleigubætur af því hún sé of fjölmenn og sumir fái heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun meðan vinnandi fólk í nákvæmlega sömu stöðu fær ekki heimilisuppbót.

Ég vil að menn fari að taka kerfið í heild sinni til umfjöllunar og komi með rökrétt og sanngjarnt kerfi og sanngjarna lausn sem leysir öll þau vandamál sem við erum að glíma við.