140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rangt að ég hafi stutt hlutafélagavæðingu sparisjóðanna, ég greiddi atkvæði gegn öllum slíkum hugmyndum á Alþingi, var einn af örfáum sem gerði það. Ég varaði við því að þetta væri fé án hirðis og það fór sem fór. Ég tel mig frekar hafa séð fram í tímann en að ég hafi verið að stuðla að einhverju.

Það má vel vera að það þurfi að hafa pínulítinn Íbúðalánasjóð sem láni til byggða þar sem ekki er endursölumöguleiki. Það kann að vera, en það yrði þá ósköp lítið. Hann víki strax til hliðar ef einhver annar vill lána með eðlilegum kjörum. Það má vel vera að sú nefnd sem er að fjalla um húsnæðisbótakerfi fyrir alla óháð búsetuformi, komi með þá lausn að starfræktur verði pínulítill íbúðalánasjóður með ríkisábyrgð sem láni til íbúða þar sem ekki er endursölumöguleiki. En bankarnir lána yfirleitt alls staðar þar sem er endursölumöguleiki, vegna þess að þá geta þeir selt eignina ef þeir skyldu eignast hana við gjaldþrot eða uppboð. Það er endursalan sem þeir hafa áhyggjur af.

Ég tel að lausnin sem við eigum að grípa til vegna þessara athugasemda ESA sé sú að selja Íbúðalánasjóð eða minnka hann mjög mikið. Hann fari yfir í það að lána bara á einhverjum skilgreindum svæðum, eins konar köldum svæðum í húsnæðistilliti.