140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um Íbúðalánasjóð er farin að teygja anga sína í ýmsar áttir. Ég gat ekki betur heyrt á ræðu hv. þm. Péturs Blöndal en að þær tillögur sem hafa verið kynntar nýverið um mögulegt nýtt húsnæðisbótakerfi væru settar upp sem einhver forsenda fyrir því að leggja niður Íbúðalánasjóð. Það er mikill misskilningur ef þingmaðurinn horfir þannig á málið. Íbúðalánasjóður er mjög mikilvægur í húsnæðislánakerfi landsins og það hefur sýnt sig í gegnum tíðina. Auðvitað er ýmislegt sem ástæða er til að skoða og fara yfir í þeim efnum. Ég tek undir þá umræðu. En það er rétt að menn hafi öll gögn og upplýsingar í höndum sem snúa að því. Við eigum von á úttektarskýrslu varðandi stöðu sjóðsins síðar á þessu ári. Ég held við ættum að fara í þá umræðu í framhaldi af því þegar hún er orðin opinber.

Ég heyrði að þingmaðurinn tók undir þær hugmyndir sem birtast í tillögum um húsnæðisbótakerfið og fagnaði þeim. Þær tillögur ganga fyrst og fremst út á að jafna rétt og stöðu eigenda annars vegar og leigjenda hins vegar. Það má í raun og veru stilla málinu upp sem svo að þetta séu annars vegar þeir sem leigja sjálfum sér og hinir sem leigja af þriðja aðila. Þar hefur verið mikil mismunun í gangi. Stuðningur við almenning á húsnæðismarkaði hefur verið misskiptur, svo ekki sé annað sagt.

Ég spyr hv. þm. Pétur H. Blöndal í framhaldi af því sem hann ræddi áðan um stöðu Íbúðalánasjóðs, en hann nefndi í lokin í síðasta andsvari sínu að hann mætti kannski vera pínulítill. Telur þingmaðurinn að staða íslenska bankakerfisins og fjármálastofnana sé þannig að þessar stofnanir séu í stakk búnar til að stýra allri húsnæðislánastarfsemi í landinu miðað við þá reynslu sem þjóðin upplifði af stöðu og stefnu þeirra á árunum fyrir hrun? Sú stefna átti kannski ekki síst (Forseti hringir.) sinn þátt í því hruni sem hér varð.