140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega allt tengt því hvernig hæstv. ríkisstjórn starfar og hvert hún keyrir landið. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þingmanni að einhver ógn steðji að bönkunum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. En mér sýnist að þeir séu að bjóða bara ágætislán sem almenningur vill. Fólk streymir inn í bankana og tekur lán og borgar upp lánið hjá Íbúðalánasjóði. Hann er kominn í vanda vegna þess að hann er með of mikið af peningum, getur ekki greitt upp lán sín vegna þess að hann hafði ekki og hefur ekki hug á því að hafa innlánin sem hann tekur, þau skuldabréf sem hann selur, með sama uppgreiðslumöguleika og lánin sem hann veitir. Það eru líka mistök. Þannig að ég sé ekki annað en að til viðbótar þeim 33 milljörðum sem við vorum að bæta Íbúðalánasjóði, um 300 þús. kr. á hverja einustu fjölskyldu í landinu, komi annar skellur. Ég held því miður að það muni gerast.

Ég held að menn ættu að fara að skoða eina stefnu í húsnæðismálum. Ríkisábyrgð í gegnum Íbúðalánasjóð er óþörf. Það kemur í ljós núna að bankarnir eru að veita lán sem fólk vill fá, óverðtryggð lán, án ríkisábyrgðar. Þannig að mér líst vel á þetta húsnæðisbótakerfi sem kemur í staðinn fyrir allt það sem ég nefndi í 1. umræðu, ég hef ekki tíma til að nefna það allt. Það er alveg í samræmi við þingsályktunartillögu sem ég lagði fram fyrir um tíu, fimmtán árum á Alþingi um að það kæmu húsnæðisbætur í staðinn fyrir vaxtabætur, húsaleigubætur, heimilisuppbót hjá Tryggingastofnun, lánasjóðinn og ríkisábyrgðina á Íbúðalánasjóði.

Það er miklu skynsamlegra að hjálpa þeim sem þarf að hjálpa en ekki vera að hjálpa hátekjufólki til að kaupa sér íbúð.