140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru orð að sönnu sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði, það er ástæðulaust að vera að hjálpa hátekjufólki til að eignast íbúð. Við höfum tölur um það hvernig misskiptingin hefur verið gagnvart þeim sem hafa verið á leigumarkaði og þeim sem hafa verið að reyna að eignast íbúð. Á tíu ára tímabili hefur fjölskylda með sambærilegar tekjur og sú sem var á leigumarkaði fengið á 8. millj. kr. greidda í vaxtabætur, á meðan leigjandinn fékk ekki eina einustu krónu í húsnæðisstuðning. Þarna er auðvitað misskiptingin í samfélaginu. Hún hefur líka birst á lánamarkaðnum eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar um lánveitingar til landsbyggðarinnar og síðan höfuðborgarsvæðisins. Hv. þingmaður Pétur H. Blöndal nefndi áðan að bankakerfið hefði verið að veita ágætislán. Ég held að menn geti greint á um það. Ég held að menn hafi verið að bjóða ágætislán fyrir hrun sem voru að mörgu leyti, vil ég halda fram, birtingarmynd ábyrgðarlausrar lánastefnu.

Ég varð að minnsta kosti var við það í starfi mínu sem bæjarstjóri í Hafnarfirði að það voru ólíklegustu hópar fólks sem komu með lánsloforð úr bankakerfinu upp á tugi milljóna kr. sem menn gátu veifað þegar verið var að auglýsa lóðir til úthlutunar. Það var annar hver bæjarbúi sem gat veifað pappírum úr bankakerfinu upp á að hann hefði greiðslugetu til þess að fara í slík lóðakaup og framkvæmdir. Auðvitað var þetta ábyrgðarlaus lánastefna sem menn beittu til þess að ná undir sig lánamarkaðnum. Það er sú hætta sem vofir yfir ef þessum málum er ekki haldið í einhverju jafnvægi.

Að mínu mati er nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður sé með ákveðna styrka stöðu á markaðnum í eðlilegri samkeppni við bankakerfið. En við leysum ekki þessi mál og byggjum þetta upp að viti til framtíðar ef við ætlum að þurrka út þá stöðu og það hlutverk sem Íbúðalánasjóður hefur sem er afar mikilvægt.