140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að engri ríkisstjórn detti í huga að reyna að brjóta í bága við EES-samninginn og þá löggjöf sem við höfum undirgengist þar, enda var það nú verkefni í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að svara ábendingum EFTA. Það var mikil vinna við það að koma til móts við þær ábendingar. Hins vegar kom það aldrei til tals af hálfu okkar framsóknarmanna að gera Íbúðalánasjóð að einhverri félagslegri stofnun. Það er ekki framtíðarsýn sem ég hef. Við getum séð fyrir okkur Íbúðalánasjóð á almennum markaði með ákveðnum takmörkunum. Að sjálfsögðu á markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs ekki að vera 80, 90 eða 100%. Hún var 90% áður en bankarnir komu inn á þennan markað.

Við þurfum að finna einhvern gullinn meðalveg í þessu, en við þurfum að horfa til þess (Forseti hringir.) að þessi stofnun geti rekið sig með sjálfbærum hætti þannig að við þurfum ekki að (Forseti hringir.) karpa um fjárframlög til hans hér á hverju einasta ári.