140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem kom fram hér í lokaorðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, það felst óréttlæti í því að bankarnir líta á landið mjög misjöfnum augum. Ég reyndi að koma því að í minni ræðu að ég vil ekki að við förum að líta á það sem eitthvert félagslegt úrræði að búa á ákveðnum svæðum landsins, heldur tel ég einfaldlega vanda fólginn í þeirri markaðsvæðingu fjármálakerfisins að líta á landsvæðin með þessum misjöfnu augum, hugsanlega vegna vanþekkingar, hugsanlega vegna fjarlægðar frá þessum svæðum og hugsanlega jafnvel vegna innbyggðra fordóma sem hafa verið uppi um langt skeið. Ég tel mikilvægt að Íbúðalánasjóður starfi á þessum markaði.

Ég vil líka nefna það eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, því sem hv. þm. Eygló Harðardóttir skrifar undir og ég kom aðeins inn á í upphafi ræðu minnar, um mikilvægi þess að hér yrðu sett almenn lög, að eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson bendir á er gríðarleg þróun á húsnæðismarkaðnum. Bankarnir hafa í auknum mæli komið inn á hann aftur, endurfjármagnaðir með stökkbreyttum niðurfelldum lánum sem þeir síðan rukka í 100% magni en hafa þar af leiðandi möguleika til að slá af. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sett verði almenn lög um alla sem veita lán til fasteignakaupa í stað þess að einblínt verði á að setja sjóðnum strangari skilyrði líkt og gerðist í aðdraganda bankahrunsins. Ég held að þar hafi einmitt skort á, þegar bólan gekk hvað hraðast voru lán bankanna til húsnæðiskaupa til stækkunar á bólunni tíu eða tólf sinnum stærri og umfangsmeiri en lán Íbúðalánasjóðs.