140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Mig langar að spyrja hann nokkurra spurninga vegna þess frumvarps sem hér liggur fyrir. Mig langar að spyrja hann um þær breytingar sem gerðar eru á 1. gr. laganna um að eftir hverjar alþingiskosningar skipi ráðherra fimm fulltrúa og varaformaður og formaður stjórnar, sem ráðherra skipar, eigi að vera úr hópi stjórnar og skipaðir til jafnlengdar embættistíma þess ráðherra sem skipar. Telur þingmaðurinn hið pólitíska vald sem þá er komið í stjórnina geta orðið á kostnað hins faglega?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um breytingar sem eru á bls. 4 í frumvarpinu þar sem komið er inn á innri endurskoðun og eftirlitskerfi með áhættu þar sem tvennt gerist, annars vegar í innri endurskoðun eins og komið er að, með leyfi forseta:

„Eigi sjaldnar en árlega skal sá sem annast innri endurskoðun Íbúðalánasjóðs gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir niðurstöðum kannana sinna. Auk þess skal hann tilkynna Fjármálaeftirlitinu sérstaklega og án tafar um þær athugasemdir sem gerðar hafa verið og sendar stjórn sjóðsins.“

Samhliða er í 11. gr. b talað um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um framkvæmd áhættustýringar, áhættuviðmið, eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi Íbúðalánasjóðs og innra eftirlits að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs og Fjármálaeftirlitsins.

Mig langar að velta þessu fyrir mér, skipan stjórnar og þá pólitísku armslengd sem við höfum stundum viljað hafa og svo aftur hvernig Fjármálaeftirlitið er raunverulega bæði umsagnaraðili um hvað má gera og síðan umsagnaraðili eftirlits þar að auki. Telur þingmaðurinn (Forseti hringir.) að þetta tvennt fari saman?