140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru afar áhugaverðar spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kemur hér með. Ég verð að viðurkenna að þar sem ég sit ekki í þessari nefnd hef ég ekki pælt í einstaka greinum frumvarpsins, en það slær mann um leið og maður heyrir og síðan les og skoðar umsagnirnar um þetta, eins og í 1. gr., að sú hugsun skuli greinilega vera að með frumvarpinu skuli stjórnin eiga að sitja ráðningartíma hvers ráðherra. Það virðist vera augljóst að fram eigi að fara pólitísk stýring sem mér finnst vera afar neikvætt. Hvort þetta er afleiðing af baksi og vandræðagangi ríkisstjórnarinnar við ráðningu forstjóra Íbúðalánasjóðs fyrr á kjörtímabilinu veit ég ekki. Það var vægast sagt vandræðaleg uppákoma þegar meiri hluti stjórnarinnar var búinn að velja sér, að sínu mati faglega, hæfan stjórnanda og hálfgert neitunarvald virtist birtast ofan úr ráðuneyti félagsmálaráðherra, þ.e. þáverandi félagsmálaráðherra kom í veg fyrir að slík ráðning yrði, og vandræðagangurinn sem varð síðan í kjölfarið. Ég veit ekki nema þetta atriði hafi fengið allt of litla athygli og þurfi að ræðast mun betur en ég hef heyrt í þessari umræðu í það minnsta.

Varðandi ákvæði 6. gr. um 11. gr. a og b finnst mér nauðsynlegt að það sé skýrt að ef Fjármálaeftirlitið á að fara að gera grein fyrir niðurstöðum kannana sinna og innri endurskoðandi á að vera í Fjármálaeftirlitinu hvort það verði sambærilegt í öllum fjármálastofnunum. Ég verð að segja eins og er að það virðist líka lykta af pólitík í 11. gr. b — við höfum náttúrlega séð í allt of mörgum frumvörpum heimildir til ráðherra að setja reglugerðir um allt milli himins og jarðar. (Forseti hringir.) Ég held að þarna verði menn líka að staldra við og velta fyrir sér hvort við séum á réttri leið.