140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þetta svar við andsvari mínu. Mig langar líka að spyrja hann í sambandi við 14. gr. á bls. 6 í frumvarpinu. Þar er áfram veitt reglugerðarheimild til ráðherra þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur með reglugerð frekari ákvæði um skilyrði lána til leiguíbúða, þar á meðal um lágmarksfjölda íbúða, gerð íbúða, stærðir þeirra, viðmið um ákvörðun leigufjárhæðar, hagkvæmni og byggingarkostnað, úrræði til þess að tryggja sem lægst íbúðarverð, takmarkanir við arðgreiðslum og þinglýsingu leigusamninga.“

Þarna er aftur komið inn ótakmarkað framsal löggjafans til ráðherra til að setja reglugerðir. Það sem vekur furðu mína, virðulegur forseti, að hvergi í þessari grein skuli vera minnst á ný lög um Mannvirkjastofnun þar sem Mannvirkjastofnun hefur ákveðnum skyldum að gegna varðandi byggingar og annað í þeim dúr og að með þessari reglugerðarheimild ráðherra skuli hvergi vísað til þess að þetta þurfi að vera í samræmi við gildandi lög Mannvirkjastofnunar o.s.frv. Hvað þykir hv. þingmanni um það að reglugerðarheimild ráðherra sé svo víð án þess að hún sé með tilvísun í önnur lög?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum þykir um að lán til leiguíbúða geti annað tveggja verið verðtryggð eða óverðtryggð og vextir af þeim lánum breytilegir eða fastir á meðan enn er, eftir því sem best verður séð á þessu, eingöngu hægt að fá verðtryggð lán frá Íbúðalánasjóði.