140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðastnefnda atriðið kom ég einmitt inn á það í ræðu minni að við framsóknarmenn teljum að Íbúðalánasjóður eigi að hafa heimild til að veita óverðtryggð lán. Ég tel því óeðlilegt að það skuli ekki vera möguleiki fyrir einstaklinga að standa jafnfætis leigufélögum og öðrum félögum hvað það varðar.

Varðandi 14. gr. er hún dæmi um ráðherraræðið sem hefur, eins og ég lýsti í fyrra andsvari mínu, tröllriðið stjórnsýslunni og frumvarpasmíð á liðnum árum. Ég held ég fari rétt með að í tíð Friðriks Sophussonar sem fjármálaráðherra hafi hugmyndir um rammafjárlög komið upp, sem er allt annað hugtak og skynsamlegt við fjárlagagerð, en síðan hafi menn farið út í að gera rammalög um nánast alla þætti stjórnsýslunnar og setja heimildir til ráðherra til að útfæra þá. Ég sé t.d. ekki fyrir mér af hverju ráðherra ætti eða hvernig það yrði ef ráðherra færi að velta fyrir sér gerð íbúða eða stærðum þeirra. Ég verð að segja eins og er að mér finnst miðstýringaráráttan ganga býsna langt.

Varðandi tilvitnun hv. þingmanns í sambandi við Mannvirkjastofnun þá væri það miklu eðlilegra. Sú umræða hefur reyndar komið upp hvort ekki þurfi einmitt að rýmka þar líka þannig að menn geti fengið lán til bygginga og kaupa á minni íbúðum en viðmið eru sett um í dag til að koma til móts við kröfur um lægra húsnæðisverð og lægra leiguverð. Ég man ekki alveg stærðirnar en við þekkjum það víða erlendis að þær íbúðir sem við höfum leigt þar eða búið í, hvort sem við höfum verið við nám eða störf, eru umtalsvert minni og öðruvísi en þær sem við gerum kröfur um hér. Ég held að þetta sé eitt af því sem við erum búin að innbyggja í samfélag okkar og gerir það að verkum að við erum með dýrari rekstur í húsnæðismálum en við þyrftum.