140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda að vekja athygli á þessu mikilvæga máli, Vatnajökulsþjóðgarði. Það er rétt sem kom fram bæði í máli hæstv. ráðherra og hv. þingmanns að heimamenn bundu miklar vonir við stofnun garðsins og hafa staðið sig býsna vel í að byggja upp ákveðið vörumerki sem þeir geta tengt ferðaþjónustunni og matvælaiðnaðinum á því svæði. Þá er kannski lokið því sem segja má jákvætt um stofnun þjóðgarðsins og það samráð sem haft hefur verið við umhverfisráðuneytið eða yfirvaldið á suðurhorninu eins og heimamenn eru nú farnir að líta á það. Ég saknaði þess að heyra ekki svar hæstv. ráðherra varðandi fyrirhugaðan Hofsjökulsþjóðgarð. Þar er gríðarleg andstaða heimamanna vegna þess að menn eru verulega svekktir og hræðast að nákvæmlega hið sama gerist þar og við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar virðist vera tilgangur sumra sem fara með stjórnunina að hefta frjálsa för og eðlileg not af svæðinu.

Ég vil koma aðeins inn á flokkunina og spyrja hæstv. ráðherra hvort verndun lands sé ekki flokkuð eftir sex alþjóðlegum flokkum þar sem þjóðgarðar falla kannski í efstu þrjá flokkana. Ég vil spyrja hvort það sé þannig á Íslandi að við göngum allar öfgaleiðir á enda, eins og við gerum oft, og þjóðgarðar séu settir í æðsta verndarflokk eins og t.d. þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þinghelgin þar. Þar má ekkert gera. Það væri vissulega miklu eðlilegra og mikilvægara að við litum á svæðið í heild sinni og flokkuðum það síðan eftir öllum þessum sex flokkum þannig að innan stærsta hluta þjóðgarða, kannski 90%, og Vatnajökulsþjóðgarðs væri fullkomlega eðlileg landnýting eins og menn hafa þekkt, ferðamennska og annað í þeim dúr.

Af því tíminn er búinn vil ég jafnframt ítreka það sem kom fram hjá byggðaráði Norðurþings um að það væri fullkomlega eðlilegt að framkvæmdaráð, þjóðgarðsverðir og önnur umsýsla (Forseti hringir.) væri heima fyrir. Tilgangurinn hlýtur að hafa verið að efla þá atvinnustarfsemi sem tengist þjóðgarði og þjóðgarðanotkun. (Forseti hringir.)