140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:14]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu um afar merkilegt verkefni sem Vatnajökulsþjóðgarður og tilurð hans er. Ég er svo heppin að hafa fengið að fylgjast vel með, bæði undirbúningi garðsins og síðan stofnun hans. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta mjög spennandi verkefni sem var vel unnið, það var sameiginlegt verkefni heimamanna, fagaðila og stjórnvalda. Ég veit ekki annað en að með því stjórnskipulagi sem nú er með svæðisráð þar sem í eiga sæti heimamenn sé almenn ánægja, að minnsta kosti á austursvæðinu þar sem ég þekki til. Það er mjög mikilvægt að því stjórnskipulagi verði haldið. Heimamenn óttast kannski að með hugmyndum um breytingu á því muni áhrif þeirra á þjóðgarðinn og uppbyggingu hans minnka. Ég held að miklu skipti að heimamenn eigi þarna sína fulltrúa.

Mér fannst líka mjög spennandi við þetta verkefni að þarna var verið að búa til spennandi samspil manns og náttúru þar sem nýting og verndun áttu að spila saman og jafnvel friðlýsing. Ég veit ekki annað en að reynslan sé almennt frekar góð. Það sem ég þekki til, til dæmis af hreindýraveiðum, hefur almennt tekist vel til. Það heyrist lítið af þeirri óánægja sem kom til dæmis upp þegar gert var griðland við Snæfell. Almennt eru menn þokkalega ánægðir en kannski þarf að skoða aðrar veiðar sérstaklega.

Það sem mér finnst skipta máli er að við verðum að vinna áfram að merkingum á þjóðgarðinum. Við þurfum að vinna að fræðslu þannig að heimamenn og skólabörnin viti að þau búi í jaðri þessa merkilega risastóra þjóðgarðs. Við þurfum að vinna að því og merkja niður í byggð þannig að maður viti að maður sé að koma inn í þjóðgarð. Það þarf að vinna sérstaklega að fræðslu og meðvitund skólabarna.

Síðan þarf að sjálfsögðu að halda áfram að byggja upp stíga. Mig langar sérstaklega að inna ráðherrann hæstv. eftir því, því hann sagði mér einhvern tímann í fyrirspurn (Forseti hringir.) að sérstaklega ætti að skoða aðgengi hreyfihamlaðra að garðinum. Mér þætti gaman að frétta af því.