140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:16]
Horfa

Baldvin Jónsson (Hr):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Við ræðum málefni Vatnajökulsþjóðgarðs og það markar að mínu mati þáttaskil gagnvart almenningi í landinu. Í þessu máli er ólíkum hópum ferðamanna á Íslandi mismunað verulega og gengið æðilangt að mínu mati í að loka á umferð allra hópa nema þess sem kýs að ganga um landið með allan sinn kost á bakinu. Þetta þykir mér veruleg mismunun, virðulegi forseti, og skapar slæmt fordæmi almennt fyrir stjórnsýsluna í landinu.

Í erindi frá Samtökum útivistarfélaga sem þeir sendu inn til Vatnajökulsþjóðgarðs taka samtökin undir ýmislegt í áætluninni í megindráttum en mótmæla um leið þeirri mismunun sem verið er að skapa í þjóðgarðinum, m.a. er verið að skilgreina tjaldstæði sérstaklega fyrir eina tegund af ferðahópum en ekki aðra. Samtökin sendu inn allnokkrar athugasemdir við áætlunin sem lítið tillit virðist hafa verið tekið til.

Mér hefur einnig borist athugasemd frá Ferðafélaginu 4x4 þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Við gerum einnig alvarlegar athugasemdir við skipan nefndarinnar, en hún er eingöngu skipuð fólki sem vill takmarka verulega aðgengi almennings að landinu í nafni náttúruverndar. Slík skipan nefndar er dæmd til að skila niðurstöðu sem miðast við skoðanir og hagsmuni þröngs hóps í stað þess að endurspegla vilja og skoðanir alls almennings. Þá er ljóst að nefndin hefur ekkert samband haft við stóran hóp náttúruunnenda þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Ekki var heldur leitað eftir athugasemdum frá fjöldasamtökum ferðafólks á borð við Ferðaklúbbinn 4x4 sem telur þó um 5 þús. félaga. Okkur er kunnugt um fjölmörg önnur útivistarfélög sem fengu heldur ekki tækifæri til að senda inn athugasemdir.“

Ég vil því koma á framfæri við hæstv. umhverfisráðherra sterkri hvatningu um að leitað sé eftir samstarfi við alla þá hópa sem nýta hálendið okkar sameiginlega, enda er hér um almenning allra landsmanna að ræða.