140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:25]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu eins og aðrir sem hafa tekið þátt, hún er þörf. Þjóðgarðar eru eins og nafnið gefur til kynna og eðli málsins samkvæmt þjóðarinnar allrar. Vatnajökulsþjóðgarður er gríðarlega verðmætur. Við verðum að viðurkenna að allir eiga sinn rétt, en þó ekki takmarkalausan. Við viljum gæta að því að skemmdir séu ekki unnar á þessum verðmætum með farartækjum, skiptir þá engu hvort um er að ræða vélknúin ökutæki eins og bíla og vélhjól eða reiðhjól eða hesta.

Þjóðgarðar eru sem fyrr segir allra. Það á að skipuleggja þá þannig að allir geti notið þeirra. Við eigum enn fremur og ég vil vekja athygli á því í þessari umræðu, að setja reglur um að skipulagðar ferðir ferðamanna innan þjóðgarða séu ávallt undir leiðsögn menntaðra leiðsögumanna sem búa yfir sérþekkingu á náttúru landsins og hvernig hún er best varðveitt. Þannig aukum við verðmæti þjóðgarðanna, aukum við verðmætasköpun af þeirra völdum og búum til atvinnu um leið og við varðveitum þessi verðmæti.

Ég held að það sé hægt að skipuleggja aðkomu almennings og mismunandi hópa að þessum náttúruverðmætum þannig að allir eigi að geta vel við unað. Að því hefur verið unnið á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar. Ég vil minna á frumvarp sem ég flutti í vetur og hefur orðið að lögum um refsingar við utanvegaakstri sem er nauðsynlegt að við herðum, ekki síst í ljósi þeirra alvarlegu tíðinda sem við höfum séð á síðum Morgunblaðsins undanfarið.

Að endingu vil ég aftur ítreka þakklæti mitt til þeirra sem standa að þessari umræðu. Hún er þörf.