140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka svarið sem var mjög efnisríkt og svaraði þeim álitaefnum sem ég lagði upp með.

Við vitum að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við getum sagt að hafi orðið einhvers konar eignabruni í samfélaginu. Mikið er vísað til þess að í kjölfar hrunsins hafi orðið eignabruni bæði með því að eignir hafi lækkað í verði og verðtryggðar skuldir manna hafi stökkbreyst. Sama má kannski segja um óverðtryggðu lánin, þegar verðbólgan hækkar má búast við því að vaxtastigið á óverðtryggðu lánunum muni hækka. Það er eitt af því sem Seðlabankinn segir, stýrivaxtahækkanir hans bíta lítið á verðtryggðu lánin en munu hins vegar bíta mjög á óverðtryggðu lánin. Það er því alveg ljóst að til lengri tíma munu stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa mjög mikil áhrif á þetta.

Ég vísaði til þess að það væri ekki í fyrsta skipti sem við höfum séð svona eignabruna. Það gerðist líka eins og við vitum úti á landsbyggðinni þegar eignir manna lækkuðu mjög mikið í verði á sínum tíma. Þá var því miður ekki brugðist við með þeim hætti að reyna að koma til móts við þá sem voru í þessari stöðu og lækka skuldir þeirra til samræmis við verðmæti eignanna. Það gerði að verkum að margir upplifðu sig í eins konar átthagafjötrum, gátu ekki selt hús sín vegna þess að söluverðið dugði ekki fyrir skuldunum. Það urðu menn einfaldlega að sitja uppi með.

Það er ekki síst út af þessari sáru og biturri reynslu sem ég legg fram þessa breytingartillögu, hef áður lagt fram samkynja frumvarp um þetta, vegna þess að það blasir núna við að þær aðgerðir sem bankarnir hafa verið að grípa til eru miklu rausnarlegri en aðgerðir Íbúðalánasjóðs. Þær aðgerðir munu fyrst og fremst gagnast mun meira á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að lán til íbúðakaupa voru fjármögnuð að miklu meira leyti í gegnum Íbúðalánasjóð. Þannig að við erum í raun og veru að búa til fyrirkomulag sem skapar ekki bara óréttlæti milli einstaklinga sem eru annars vegar í viðskiptum við bankana og hins vegar Íbúðalánasjóð, heldur óréttlæti milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, því það er landsbyggðin sem er stóri viðskiptavinur Íbúðalánasjóðs hlutfallslega. (Forseti hringir.) Ef menn fá ekki leiðréttingu með sama hætti hjá Íbúðalánasjóði og hjá bönkunum eru menn verr staddir eftir. Það ræðst þá af búsetunni.