140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi verð ég að segja að það á vitanlega ekki að vera þannig ef menn óttast að þetta leigufélag fari að undirbjóða eða greiða niður leigu og setja leigufélög á hausinn sem hafa skuldbundið sig annaðhvort hjá Íbúðalánasjóði eða öðrum fjármálastofnunum. Það er náttúrlega algjörlega galið. Við verðum að gera kröfur til þessa félags að það vinni á markaði, vinni eftir eðlilegum aðferðum. Við þurfum að tryggja að Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið og allir aðrir hafi eftirlit með þessu félagi til að tryggja að svo verði.

Ég er á móti því að svona batterí fari inn á þennan markað og hagi sér þar eins og fíll í postulínsbúð. Ég er hins vegar hlynntur því að þetta félag verði til, en ég vil að um það gildi þá skýrar reglur. Ef sú verður reyndin að ríkisleigufélagið verður til þess að önnur félög fara á hausinn þarf að skoða það aftur. Ég er ekki hlynntur því að búa til frekari vandamál.

Það er alveg rétt að Íbúðalánasjóður hefur þurft á aðstoð að halda. Það er ekkert skrýtið, þessi stofnun hefur verið einhver helsta lánastofnun þeirra sem byggt hafa leiguíbúðir, félaga sem hafa verið að byggja blokkir o.s.frv. Við vitum að þar hefur gengið illa. Ef ég man rétt hafa um 135 eða 140 milljarðar verið afskrifaðir í fyrirtækjum í verslun og þjónustu, þar á meðal í byggingageiranum. Þannig að þetta eru háar tölur.

Íbúðalánasjóður á að mínu viti áfram að vera sjóður sem lánar til fasteignabygginga og fasteignakaupa. Hann á vitanlega að hafa það hlutverk líka að lána á félagslegum forsendum (Forseti hringir.) þar sem aðrar stofnanir treysta sér ekki til að lána fé.