140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega erfitt að gera eitthvað róttækt í því ef frumvarpið eitt hefur haft þessi áhrif. Ég verð hins vegar að hvetja fólk til að vera aðeins rólegt því að að sjálfsögðu þarf að koma í ljós hvernig félagið á að starfa og hver verður verðlagning þess og allt þess háttar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er ekki eðlilegt að félag sem þetta fari inn á markaðinn og húrri leiguverði niður úr öllu og setji aðra í vanda. Þá verður bara til spírall sem við þekkjum og við vitum hvernig hann endar.

Ég held hins vegar að þetta félag verði að verða til í einhverri mynd — við erum kannski ekki alveg sammála þar, ég veit það ekki — til þess að sjóðurinn geti fengið fjármagn út úr þeim íbúðum sem hann á. En hvort sem ríki eða sveitarfélög reka íbúðir þarf að gæta þess að markaðsverð skekkist ekki þegar þær eru seldar eða leigðar.