140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í umræðunni í gær mælti ég fyrir breytingartillögu sem ég hef flutt við það frumvarp sem er hér til umræðu. Hún er í raun lögfesting á því að gefa Íbúðalánasjóði heimild til þess að fara í það sem kallað hefur verið landsbankaleiðin við lækkun skulda hjá skuldugum heimilum. Ég flutti margvísleg rök um hvers vegna nauðsynlegt væri að gera þetta. Ég ætla að bæta við nokkrum atriðum sem mér finnst umræðan hafa kallað á. Í fyrsta lagi hef ég vakið athygli á að þetta sé óréttlæti að því leytinu til að þeir sem hafa tekið íbúðalán hjá bönkunum hafa fengið betri trakteringar en þeir sem hafa tekið íbúðalán hjá Íbúðalánasjóði. Það er ekki við sjóðinn að sakast heldur það að lagaumhverfið er þannig að Íbúðalánasjóður getur ekki veitt skuldugum heimilum sams konar fyrirgreiðslu og bankarnir hafa getað gert. Þess vegna er svo nauðsynlegt að breyta lögunum.

Í annan stað hef ég vakið athygli á því sem mér finnst skipta miklu máli í þessu sambandi, því að Íbúðalánasjóður er aðallánardrottinn þeirra sem taka íbúðalán og búa á landsbyggðinni. Bankarnir hafa komið þar miklu minna til skjalanna. Ef sú staða sem uppi er í samfélaginu núna heldur áfram verður til mismunun, ekki bara á einstaklingsgrunni heldur líka milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. (BJJ: Rétt.) Það er mjög alvarlegt og þess vegna hefði ég vænst þess að til dæmis hæstv. velferðarráðherra sem aðeins hefur vikið sér að þessari umræðu hérna í dag hefði tekið það mál sérstaklega upp. Ég veit að hæstv. velferðarráðherra er einlægur landsbyggðarmaður og vill auðvitað ekki að þeir sem búa á landsbyggðinni búi við það óréttlæti sem sannarlega er til staðar.

Ég hafði líka fulla ástæðu til að halda að um þetta mál gæti skapast mjög mikil samstaða. Ég hef heyrt þingmenn Framsóknarflokksins kalla eftir frekari aðgerðum gagnvart skuldugum heimilum. Ég hef heyrt talsmenn Hreyfingarinnar tala mjög mikið í þá veru. Einn meðflutningsmanna minna að því frumvarpi sem þessi breytingartillaga byggir á er hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Síðast en ekki síst liggur fyrir mjög skýrt og greinilega að bæði hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og hv. þm. Árni Páll Árnason, sem var hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á þeim tíma þegar ég var að velta þessum málum fyrir mér, hafa sýnt þessu áhuga. Ég hafði þess vegna fullt tilefni til að ætla að um þessa leið gæti tekist prýðileg sátt. Þess vegna hafði ég að því frumkvæði að leggja þetta frumvarp fram. Hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Árni Páll Árnason töluðu mjög skýrt í þessum efnum. Þeir sögðu efnislega sem svo að ef Íbúðalánasjóður gæti ekki komið til skjalanna gagnvart skuldugum heimilum til jafns við bankana væri hægt að fara að efast um sjálfan tilverugrundvöll Íbúðalánasjóðs. Það er sú áleitna spurning sem er uppi í samfélaginu í dag hvort þörf sé á Íbúðalánasjóði sem er einhvers konar tilraun til félagslegs inngrips á íbúðamarkaði ef sá sjóður er í þeirri stöðu að geta ekki komið til móts við skuldara sína með sama hætti og markaðurinn gerir.

Hæstv. velferðarráðherra taldi þetta mjög óábyrga tillögu vegna þess að hún kostaði ríkissjóð peninga. Það er alveg rétt, hún kostar peninga, en datt einhverjum í hug að það kæmi ekki við pyngju ríkissjóðs ef gera ætti frekari ráðstafanir gagnvart heimilunum í landinu? Var ætlunin að þetta yrði gert með einhverjum hókus-pókus aðgerðum sem snertu engan, það yrði enginn af neinu ef það yrði farið í það að lækka skuldir heimilanna sem eru skuldir við Íbúðalánasjóð? Hvernig datt mönnum það í hug?

Ég tekst á við þetta í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu og vek athygli á því að það eru að minnsta kosti tveir kostir í stöðunni, annars vegar sá að það fari bara út úr ríkissjóði. Það yrði högg á ríkissjóð, það er alveg hárrétt. Síðan væri hinn kosturinn að gefa út skuldabréf með víkjandi kjörum sem Íbúðalánasjóður gæfi út og ríkissjóður keypti og fjármagnaði þar með. Þá væri það greiðsluskuldbinding af hálfu ríkissjóðs en hefði hins vegar ekki bein áhrif á greiðsluflæði hans. Það er aðferð sem hægt er að nota.

Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur boðað það 100 sinnum úr þessum ræðustóli að nú séu á döfinni hugmyndir úr efnahags- og viðskiptanefnd til að koma til móts við skuldug heimili. Ég hefði þess vegna talið að frumvarpið yrði fagnaðarefni bæði fyrir hann og aðra þá sem hafa kallað eftir slíkum frekari aðgerðum. Ber ef til vill að skilja viðbrögð hæstv. velferðarráðherra þannig að nú sé orðið endanlega ljóst að skuldug heimili eigi ekki von á frekari aðgerðum af hálfu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar? Ef það er þarf það að koma fram og ef það er þannig eru það mikil tíðindi en ég hygg líka mikil vonbrigði fyrir heimilin í landinu.