140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég ætla að byrja á síðari spurningunni og þeim vangaveltum hv. þingmanna hvort þörf sé fyrir Íbúðalánasjóð eður ei.

Ímyndum okkur að þeir sem sögðu þetta hefðu ekki verið þingmenn Samfylkingarinnar heldur til dæmis Sjálfstæðisflokksins sem hefðu lýst því yfir að nú væri komið stórt spurningarmerki um það hvort yfir höfuð væri þörf fyrir Íbúðalánasjóð. Að minnsta kosti á velmektardögum hæstv. forsætisráðherra sem stjórnarandstæðings eða velmektardögum hæstv. forsætisráðherra sem félagsmálaráðherra er ég ekki í nokkrum vafa um að hæstv. ráðherra hefði risið aldeilis upp á afturlappirnar og talað um nýfrjálshyggjuna sem væri farin að ríða röftum í Sjálfstæðisflokknum, (BJJ: Rétt.) að þarna væri Sjálfstæðisflokknum rétt lýst þegar hann talaði um að það ætti að leggja niður þetta mikilvæga, merkilega fyrirbrigði sem væri Íbúðalánasjóður.

Ég held að þessir hv. þingmenn hafi út af fyrir sig ekkert verið að leggja til að leggja niður Íbúðalánasjóð og setja eignasöfnin inn í bankana. Ég ætla að minnsta kosti ekki að túlka orð þeirra þannig. Ég held að þeir hafi hins vegar verið að benda á það augljósa, að ef Íbúðalánasjóður getur ekki veitt sínum skuldurum þá þjónustu sem þeir fá á markaðnum er orðið mjög erfitt að flytja fyrir því rök að Íbúðalánasjóður hafi einhvern sérstakan tilverurétt.

Ef Íbúðalánasjóður hefur sem félagslegt fyrirbæri á markaðnum ekki möguleika á að koma til móts við skuldara sína með sama hætti og gert er í bönkunum, sem eru þó bara reknir á markaðslegum forsendum skyldum við ætla, er mjög erfitt að segja að við þurfum líka að hafa hér einhvern ríkisrekinn íbúðalánasjóð með ríkisábyrgð á útlánum sínum sem á að koma til móts við heimili með öðrum hætti og betri en bankarnir, en getur síðan ekki gert það vegna þess að hann er bundinn í báða skó með löggjöfinni. Það er þetta samhengi sem við verðum að átta okkur á og það er þetta sem ég er að takast á við með því frumvarpi sem ég hef lagt fram sem nú er breytingartillaga við þetta frumvarp. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem hafa talað í þessa veru og margir aðrir styðji þessa breytingartillögu.