140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi eftirlitsnefndina og þær ábendingar sem hún hefur sett fram. Eins og kom fram í ræðu þingmannsins hefur hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, ótal sinnum komið í ræðustól Alþingis að eigin frumkvæði og lýst því yfir að nefndin muni leggja fram einhverjar tillögur eða að hér muni koma fram einhver viðbrögð. Einnig fór hv. þingmaður ágætlega yfir ummæli hv. þingmanns sem og efnahags- og viðskiptaráðherra og einnig fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra um sambærilega hluti. Megum við draga þá ályktun, því að enn stöndum við frammi fyrir þeirri augljósu staðreynd að í salnum er enginn stjórnarliði til að svara, að með því að koma fram með það frumvarp sem við erum að ljúka hér í 3. umr. — satt best að segja því meir sem við ræðum það því fleiri spurningar vakna um hvort frumvarpið sé nægilega vel úr garði gert til að fara í atkvæðagreiðslu seinna í dag eða á morgun — og tekur á svo fáum afmörkuðum þáttum og skilur algerlega eftir ósvarað hvaða stefnu ríkisstjórnin hafi í heildarhúsnæðismálum á landinu þá komi í ljós uppgjöf ríkisstjórnarinnar gagnvart því að koma fram með lausnir handa skuldugum heimilum? Og eins, er ekki stefna ríkisstjórnarinnar og þeirra að grípa t.d. tækifærið sem þessi breytingartillaga hv. þingmanns ber með sér?

Þar sem ég hef ekki getað verið viðstaddur alla umræðuna vil ég spyrja: Hafa stjórnarliðar úr efnahags- og viðskiptanefnd eða velferðarnefnd eða hæstv. ráðherrar brugðist við tillögu þingmannsins (Forseti hringir.) í ræðustól Alþingis?