140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég byrji á að nota talsmáta sem hæstv. utanríkisráðherra grípur stundum til þá er ég eins og allir vita frekar velviljaður maður og þess vegna má kannski segja að með breytingartillögu minni sé ég einmitt að auðvelda þeim hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig í þá veru sem breytingartillagan gengur út á að fylgja eftir þeim hugsjónum að fara landsbankaleiðina og beita henni síðan á þá sem eru skuldugir við Íbúðalánasjóð. Það má kannski líta svo á að þetta sé sérstök greiðasemi af minni hálfu við þá hv. þingmenn sem ella hefðu ekki átt þess kost að fylgja eftir þessum hugmyndum sínum og hugsjónum. Ég geri ráð fyrir að þetta eigi við um fjölmarga aðra. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir séu eins og Palli var einn í heiminum í þingflokki sínum í þessum efnum, þeir hljóta að eiga þar breiðan stuðningshóp.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort menn hefðu brugðist eitthvað við þessu, t.d. úr stjórnarliðinu. Ég hef reynt að fylgjast nokkuð með þessari umræðu, sérstaklega eftir að ég mælti fyrir breytingartillögu minni, og einu viðbrögðin sem mig rekur minni til eru ein eða tvær setningar hæstv. velferðarráðherra í andsvari við annan hv. þingmann þar sem hann fann þessu allt til foráttu, þetta kostaði svo mikla peninga, þetta væri alveg ómögulegt. Ég hef þegar aðeins farið yfir það með hvaða hætti væri mögulega hægt að fjármagna þetta. Ég hef líka spurt þeirrar spurningar hvort menn hefðu látið sér detta í hug að frekari aðgerðir gagnvart skuldugum heimilum mundu ekki kosta ríkissjóð neitt.

Svo má ekki gleyma einu. Með því að fara þessa leið er Íbúðalánasjóður í raun og veru að bæta lánasafn sitt og tryggja að þeir sem eftir standa séu þá frekar í færum til að borga af lánum sínum. Ég hef kynnt mér reynslu Landsbankans hjá starfsmönnum bankans sem hafa einkum haft með þessi mál að gera. Reynslan er sú að með þessum aðgerðum, sem tóku mjög skamman tíma og kostuðu ekki skriffinnsku þess fólks sem í hlut átti, batnaði lánasafnið, innheimtur urðu betri og vanskil minnkuðu. Frá þeirra sjónarhóli var þetta svona. Það er ekki hægt að horfa á þetta þannig að sá kostnaður (Forseti hringir.) sem þarna falli til sé kostnaður sem ella mundi ekki falla á Íbúðalánasjóð. Það er ljóst mál að Íbúðalánasjóður mun við óbreyttar aðstæður þurfa að axla töp.