140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, EES-reglur og fleira.

Það var 18. júlí 2011 sem athugasemd og niðurstöður rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs lágu fyrir. Það er tæpt ár síðan. Síðan kemur þetta frumvarp hingað inn á síðustu dögum þingsins. Það fær ekki mikla umræðu í velferðarnefnd og eftir því sem umræðu um þetta frumvarp vindur fram koma upp fleiri og fleiri álitamál sem nauðsynlegt hefði verið að taka á og skoða frá því að þessi athugasemd kom fram 18. júlí 2011. Ég hef gagnrýnt að sá tími hafi verið illa nýttur. Ég hef gagnrýnt að ekki sé brugðist nægjanlega við skoðun Eftirlitsstofnunarinnar og niðurstöðum. Ég hefði kosið og hef sagt það áður að menn hefðu nýtt tímann frá 18. júlí síðastliðnum fram til dagsins í dag til að fara yfir lög og reglur um Íbúðalánasjóð og endurskoða hann frá grunni með tilliti til þess að Íbúðalánasjóður virðist ekki vera í stakk búinn til að koma til móts við skuldug heimili á sama hátt og aðrar lánastofnanir geta gert. Þetta hefði verið gullið tækifæri fyrir okkur til að fara í gegnum endurskoðun laga, fara yfir umhverfi og lagaramma sem við vildum að Íbúðalánasjóður ætti að starfa innan, en við höfum ekki nýtt tímann til þess. Þess heldur er enn einu sinni farið af stað með lagasetningu sem mest líkist bútasaumi og þó að hann geti verið fallegur í efnum séð er hann hvorki góður né vænlegur þegar lög eru annars vegar.

Þegar menn átta sig á því úti í samfélaginu að hér stendur til að taka þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur þurft að leysa til sín á undanförnum árum, ekki bara frá því eftir hrun heldur líka fyrir hrun, og koma þeim síðan í ákveðnu leigufélagi á markað hefur umræðan um það sem er í frumvarpinu nú þegar orðið til þess að uppnám er á leigumarkaðnum. Menn eru uppnámi hjá þeim fyrirtækjum sem eru fyrir á markaði vegna þess að við höfum ekki skoðað hvaða áhrif þessi löggjöf hefur hugsanlega á samkeppnissjónarmið og markaðinn í heild. Það er því, virðulegur forseti, verr af stað farið en heima setið þegar við komum með lagasetningu af þessu tagi.

Það er dapurlegt, virðulegur forseti, þegar við þurfum að slást hér og fólkið í landinu þarf að slást á degi hverjum fyrir tilverurétti sínum til að geta rekið húsnæði og greitt af lánum sínum að löggjafinn skuli sýknt og heilagt sýna borgurunum þá vanvirðu að koma fram með illa ígrunduð frumvörp sem við vitum ekki hvaða áhrif hafa vegna þess að við höfum ekki gefið okkur tíma til að skoða hugsanleg ruðningsáhrif þeirra.

Ég velti líka fyrir mér, virðulegur forseti, af hverju tíminn er ekki nýttur eins og ég ræddi í upphafi. Af hverju er tíminn ekki nýttur til að skoða og velta því upp hvort þetta sé virkilega dagsetningarmál? Skiptir máli að þessu sé lokið fyrir 18. júlí 2012, að Eftirlitsstofnun EFTA hafi sett okkur þau skilyrði að við ættum að ljúka þessu fyrir 18. júlí 2012? (Gripið fram í: Já.) Það kann að vera. Það hefur aldrei komið fram í umræðunni að hér sé um dagsetningarmál að ræða.

Ég sé að hv. framsögumaður nefndarálits og velferðarnefndar í þessu máli, hv. þm. Lúðvík Geirsson, er í gættinni. Ég tel þarft að hann óski eftir því að umræðu um málið verði frestað, nefndin gæti skoðað það á meðan og við gætum skoðað málið frekar, vegna þess að ég held að við séum að fara fram úr okkur í lagasetningu, við séum ekki búin að kanna ruðningsáhrif þeirra laga sem hér liggja fyrir. Það væri vænlegt til árangurs, virðulegur forseti, ef hv. framsögumaður þessa nefndarálits og frumvarps velferðarnefndar óskaði eftir að umræðunni yrði frestað.