140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var merkileg og efnismikil ræða. Ég vil í framhaldi af henni spyrja framsögumann málsins, hv. þm. Björn Val Gíslason, hver hafi verið ástæða þess að hann sjálfur óskaði eftir því að málið yrði kallað inn í nefndina milli 2. og 3. umr. Ekkert það hafði gerst í umræðunni sem kallaði á breytingar, því ekki var flutt breytingartillaga, við vitum það. Að vísu kom mjög margt fram í umræðunni en mig langar að vita hver ástæðan er fyrir þessu kalli inn í fjárlaganefndina, ég man ekki eftir að í umræðunni hafi ósk um það komið fram.

Meira ætla ég nú ekki að spyrja um á þessu stigi, enda þótt margt í ræðunni gefi tilefni til þess að fara ítarlega yfir málið og biðja um frekari skýringar á efnisatriðum þeim sem fram komu í ræðu hv. framsögumanns málsins hér í upphafi 3. umr.