140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að kalla mál til nefnda sem hafa hlotið jafnmikla umfjöllun hér á þingi og í samfélaginu eins og það mál sem hér um ræðir. Fyrir lágu þrjú nefndarálit varðandi málið hér við 2. umr. Mér finnst það sjálfsagt, þegar skiptar skoðanir eru um mál, að þau séu kölluð inn til nefndar til að nefndarmenn fái að leggja mat á það hvort ástæða sé til að gera breytingar á málinu, leggja fram breytingartillögur, eða ef eitthvað það hefur komið fram í umræðunni sem krefst frekari tillagna eða breytinga á frumvarpinu eða umræðu að öðru leyti. Það var ekki álit meiri hluta fjárlaganefndar og því leggur meiri hluti til að málið verið samþykkt óbreytt.