140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[16:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Við ræðum hér Vaðlaheiðargöng, það mikla mál sem svo sannarlega hefði átt að fara hér í gegn á öðrum forsendum en það gerir núna. Ég hef sagt frá upphafi að Vaðlaheiðargöng eru ágæt samgöngubót, en aðferðin við að koma þeim í gegn er að mínu mati til vansa fyrir Alþingi Íslendinga og til vansa fyrir fjárlaganefnd. Það segir í nefndaráliti fjárlaganefndar, sem er nú stóreinkennilegt plagg, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu mun ríkissjóður fjármagna framkvæmdalánið með sölu markaðsskuldabréfa. Gert er ráð fyrir að endurfjármagna lánið árið 2018 á almennum lánamarkaði.“

Það hefur komið skýrt fram í skýrslu Ríkisábyrgðasjóðs og áliti hans fyrir fjárlaganefnd að þetta verður ekki gerlegt, þannig að nefndarálitið eins og ég sagði er um margt sérkennilegt plagg.

Það segir líka í nefndarálitinu:

„Meiri hlutinn bendir á að verulegur þjóðhagslegur ávinningur fylgir framkvæmdinni. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að samningar við VHG hf. geri ráð fyrir því að göngin verði eign ríkissjóðs að uppgreiðslutíma liðnum.“

Það hefur komið fram í gögnum málsins sem og í málflutningi forsvarsmanna Ríkisábyrgðasjóðs fyrir fjárlaganefnd að það er engin þjóðhagsleg hagkvæmni af þessum göngum. Þeir notuðu líkan rannsóknarseturs Háskólans á Akureyri sem hafði árið 2006 reiknað út þjóðhagslega arðbærni framkvæmdarinnar og miðað við þær forsendur sem þá voru inni gekk framkvæmdin upp þjóðhagslega. En miðað við þær forsendur sem Vaðlaheiðargöng hf. setti upp og settar voru inn í nákvæmlega sama líkan, varð niðurstaðan sú að þjóðhagsleg arðbærni framkvæmdarinnar væri neikvæð um 1,4 milljarða. Það segir ýmislegt um framkvæmdina. Það þýðir ekkert að segja að það sé skrýtið mál. Það segir einfaldlega að framkvæmdin mun aldrei verða arðbær.

Hér segir einnig að ríkissjóður muni spara umtalsverða fjármuni vegna minni snjómoksturs á leiðinni um Víkurskarð. Það hefur aldrei nokkurn tímann í þessu máli komið fram að ekki verði mokaður snjór úr Víkurskarði í framtíðinni. Svona staðhæfingar eru í takt við annað í málflutningi stuðningsmanna þessa máls.

Kostnaður af rekstri ganganna mun lenda á ríkinu. Það kemur skýrt fram í þessu nefndaráliti, þannig að hér er náttúrlega alls ekkert um einkaframkvæmd að ræða, heldur er þetta ríkisframkvæmd sem er sett fram á brostnum forsendum og reynt að keyra í gegn vegna þess að menn þora ekki að viðurkenna að hér er um ríkisframkvæmd að ræða.

Það er margt hægt að segja um þetta mál. Víkurskarð sem slíkt er í 98. sæti yfir hættulega vegi á Íslandi. Það er í 85. sæti af 150 köflum á hringveginum sem eru taldir hættulegir. Pálmi Kristinsson verkfræðingur sem hefur meira en 30 ára reynslu af gerð jarðganga og tilboðum í jarðgöng á Íslandi og um allan heim, gerir 27 alvarlegar athugasemdir við framsetninguna á þessu máli. Til dæmis var upphaflega gert ráð fyrir 1.500–1.700 kr. veggjöldum af þessari framkvæmd þegar lífeyrissjóðirnir sögðu sig frá verkinu vegna þess að þeir sögðu að væri ekki arðbært, ekki einu sinni með þeim veggjöldum. Nú eru veggjöldin komin niður í 1.000 kr.

Útreikningar í tengslum við umferðarspár og hagvöxt eru síðan enn eitt dæmið sem er mjög einkennilegt. Til dæmis er ekki tekið tillit til þess að umferð almennt hefur minnkað um 10% frá því umferðarspárnar voru fyrst gerðar. Það hefur heldur ekki verið tekið tillit til þess að á þessum tíma varð mettun í bílaeign landsmanna. Íslendingar eiga fleiri bíla á haus en nokkur önnur þjóð í heimi. Meiri bílaeign hefur að sjálfsögðu valdið því að umferð hefur aukist á undanförnum árum en hún mun ekki aukast með sama hætti inn í framtíðina. Þetta er ekki skoðað.

Það er líka vandamál við þetta mál að menn reikna meðalumferð yfir árið í gegnum þessi göng. Hins vegar er mestur hluti umferðarinnar á þessu svæði á sumrin og umferðin á veturna er eingöngu 20% af sumarumferðinni. Það er því ekki hægt að nota 90% af meðalumferð árið um kring þegar augljóst mál er að fólk mun nota göngin í miklu minna mæli yfir vetrartímann. Hér er ég ekki að tæpa á nema örfáum atriðum.

Eins og kemur fram í áliti Ríkisábyrgðasjóðs mun 1% hækkun á vöxtum á tímabilinu leiða til þess að það verði mjög miklar líkur á greiðslufalli fyrirtækisins. Frá því að nefndarálitið var samþykkt hefur Seðlabanki Íslands hækkað vexti um 0,75%, þannig að ekki er nú upp á mikið að hlaupa þar.

Ég vísaði í andsvari áðan til álits frá forstöðumanni lánamála ríkisins hjá Seðlabankanum, en hann segir opinberlega í blaðagrein í víðlesnasta blaði landsins þann 24. maí, með leyfi forseta:

„Ýmsar skýrslur hafa verið gerðar á undanförnum árum sem fjalla um fjárhagslega þætti Vaðlaheiðarganga. Greinarhöfundur hefur ekki séð neina skýrslu þar sem því er haldið fram að jarðgöngin muni standa undir sér með veggjöldum einum saman. Einu gögnin um það byggja á minnisblöðum og fjárhagsmódeli frá þeim aðila sem kemur til með að fá lánið veitt frá ríkissjóði þ.e. VHG hf. Í skýrslu IFS Greiningar sem lagði mat á getu verkefnisins til að greiða til baka lánið er sérstaklega varað við að fjárhagslega geta VHG hf. til að standa af sér neikvæða atburði sé mjög takmörkuð vegna lágrar eiginfjárstöðu sem skapi umtalsverða áhættu fyrir lánveitenda. IFS Greining tók ekki afstöðu til þess hver eiginfjárstaða félagsins þurfi að vera til þess að áhætta lánveitandans þ.e. ríkissjóðs sé ásættanleg.

Því er haldið fram að göng um Vaðlaheiði séu þjóðhagslega arðsöm og er þar aðallega vísað í skýrslu um mat á þjóðhagslegri arðsemi Vaðlaheiðarganga sem unnin var af Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri (RHA) og birt var í janúar árið 2006. Niðurstaða þeirrar skýrslu var að samfélagslegur ábati framkvæmdarinnar væri 1,16 milljarðar kr. og 1,5 milljarðar kr. ef göngin væru gerð í samdráttarástandi. Skýrslan byggði að miklu leyti á forsendum sem fengnar voru frá Greiðri leið ehf., sem samkvæmt samþykktum félagsins var stofnað í þeim tilgangi að undirbúa gerð jarðganga um Vaðlaheiði. Ýmsar forsendur sem skýrslan byggði á hafa þróast til verri vegar. Stofnkostnaður við göngin hefur hækkað um 32% á föstu verðlagi og árleg umferðarspá Greiðrar leiðar ehf. er mun lægri nú en árið 2006. Ef skýrslan er uppreiknuð miðað við forsendur um stofnkostnað og umferðarspá sem VHG hf. kynnti umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í nóvember 2011 yrði þjóðhagslegt tap framkvæmdarinnar um 1,2 milljarðar kr. (miðað við 4,7 ávöxtunarkröfu) og 0,4 milljarðar kr. ef göngin yrðu gerð í samdráttarástandi.“

Slíkur er nú samfélagslegur ábatinn af þessum göngum. Þessar röksemdafærslur telur Alþingi og fjárlaganefnd ekki ástæðu til að taka alvarlega. Það finnst mér alvarlegast í þessu máli. Hvernig stendur á því að eftir allt sem á undan hefur gengið í stjórnsýslu og stjórnmálum á Íslandi skuli aðvörunarorð einnar af eftirlitsstofnunum ríkisins enn einu sinni vera virt algjörlega að vettugi? Við höfum ekki þróast neitt síðan fyrir hrun, því miður.

Það segir líka í grein forstöðumannsins, með leyfi forseta:

„Ein af ástæðum sem talin er að réttlæti framkvæmdina er að hún stuðli að samþættingu atvinnulífs og byggða á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum og því að svæðið verði eitt atvinnu- og búsvæði. Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er vegalengdin á milli Akureyrar og Húsavíkur 91 km. Með tilkomu ganganna er gert ráð fyrir 15,7 km vegstyttingu þannig að vegalengdin á milli þessara staða styttist niður í 75,3 km sem er svipuð og vegalengdin á milli Reykjavíkur og Holta- og Landsveitar sem er fyrir austan Þjórsá og milli Reykjavíkur og Borgarnes sem er 74 km. Ef tilkoma Vaðlaheiðarganga leiðir til þess að Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýsla teljist eitt atvinnu- og búsvæði þá má með sömu rökum líta svo á að svæðið frá Borgarnesi og Holta- og Landsveit, austan Þjórsár sé nú hluti atvinnulífs og byggða við höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt rannsóknum á vegum Evrópusambandsins er gert ráð fyrir að akstur á milli heimilis og vinnu sé ekki meiri en 45 mínútur til þess að staðir geta talist tilheyra sama atvinnu- og búsvæði. Áætlað er að tilkoma ganganna stytti ferðatímann um níu mínútur en núverandi ferðatími á milli Akureyrar og Húsavík er um ein klukkustund ef að jafnaði er ekið á 91 km hraða. Rannsóknir Evrópusambandsins styðja því ekki þá skoðun að tilkoma ganganna geri svæðið að einu atvinnu og búsvæði.

Ýmis önnur sjónarmið hafa komið fram varðandi göngin, t.d. hvort um sé að ræða einkaframkvæmd eða opinbera framkvæmd. Einnig hafa talsverðar umræður átt sér stað um mikilvægi ganganna í tengslum við umferðaröryggi og samanburð við umferðaröryggi við aðra vegarkafla landsins án þess að fjallað verður um það hér.“

Þetta segir höfundur, og er þá að vísa í þær skýrslur sem ég nefndi áðan um umferðaröryggi á Víkurskarði.

Herra forseti. Svo segir höfundur í lokin:

„Allt verkefnið felur í sér mikla óvissu. Mikil óvissa er til dæmis um það hvort umferðarmagn verði nægilega mikið til að standa straum af framkvæmdinni. Óvissan felst meðal annars í skiptingu umferðarinnar á milli ganganna og núverandi vegar í gegnum Víkurskarðið þar sem engin veggjöld eru innheimt.“

Það mætti hafa fleiri orð um þetta mál, en ég ætla ekki að lengja mál mitt mjög mikið. Ég ætla að gera hér stutta samantekt vegna þessa frumvarps.

Í upphafi voru Vaðlaheiðargöng inni í samgönguáætlun sem ríkisframkvæmd eins og allar aðrar úrbætur á vegakerfinu. (KLM: Hvenær var það?) Samgönguáætlun er faglegt plagg sem Alþingi og stjórnvöldum ber að styðjast við til þess að forgangsraða samgöngumálum á landinu á faglegum forsendum og umferðaröryggi er meðal annars einn af hornsteinum áætlunarinnar. Þar sem það var ekki nóg var reynt að finna Vaðlaheiðargöngum tilverurétt með því að fara með þau í einkaframkvæmd og fjármagna þau með lánsfé sem endurgreitt yrði með veggjöldum. Á þeim forsendum og sem algjört skilyrði voru lög nr. 97/2010 samþykkt á Alþingi. Það var leitað eftir fjármögnun hjá lífeyrissjóðum en það rann út í sandinn vegna vaxtakjara og áhættumats lífeyrissjóðanna á því hvort veggjöld gætu staðið undir framkvæmdinni.

Í fjáraukalögum 2011 var samþykkt heimild til lántöku og ríkisábyrgðar fyrir Vaðlaheiðargöng að fjárhæð 1 milljarð kr. Sú samþykkt var skilyrt því að göngin væru algjörlega sjálfbær og veggjöld mundu standa undir framkvæmdinni samkvæmt lögum nr. 97/2010. Miklar efasemdir hafa síðan verið uppi um forsendur og hagkvæmni Vaðlaheiðarganga. Umhverfis- og samgöngunefnd skoðaði málið mjög vel og samþykkti að óska eftir óháðu mati á forsendum framkvæmdarinnar. Því var hafnað og slíkt mat hefur ekki farið fram. Fjármálaráðuneytið lét EFS vinna skýrsluna. Pálmi Kristinsson gerði sína eigin. FÍB hefur gert ýmsar kannanir, auk fleiri aðila.

Hæstv. forseti. Hér er stutt samantekt á þeim fullyrðingum sem fram hafa komið um Vaðlaheiðargöng og við höfum heyrt í þingsal og víðar. Það hefur verið talað um að Vaðlaheiðargöng séu gífurleg samgöngubót. Þau eru ekki gífurleg samgöngubót, þau eru samgöngubót. Það eru margar brýnni aðgerðir sem væru gífurlegar og miklu betri samgöngubætur. Þar má nefna Norðfjarðargöng, Vestfirði, Dýrafjarðargöng, Suðurlandsveg og margt fleira. (Utanrrh.: Almannaskarð.) Það er ekki mikið um lokanir í Víkurskarði. Það eru margir miklu verri fjallvegir sem mætti laga frekar, t.d. Hellisheiði, Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði, Ljósavatnsskarð og fleiri.

Við höfum einnig heyrt fullyrt að göngin muni stytta hringveginn verulega. Það er heldur ekki rétt. Þetta er 16 kílómetra stytting, átta mínútna stytting mælt í tíma. Norðfjarðargöng eru álíka stytting og aðrir kostir í Eyjafirði gætu skilað meiri styttingu. Stytting vegna Hvalfjarðarganga sem menn hafa notað sem samanburð er 41 kílómetri og Fáskrúðsfjarðarganga 35 kílómetrar. Önnur mun meiri stytting hringvegarins ef menn fara þá leið er til dæmis vegur um Öxi, þverun Berufjarðar, Svínavatnsleið í Húnavatnssýslu og fleiri vegir.

Þannig að það eru ekki sérlega mörg og merkileg rök sem mæla með Vaðlaheiðargöngum, önnur en þau að þau skapa kannski einhverja atvinnu á Norðurlandi í einhvern tíma, það er vissulega rétt. En er það nægilegt? Göng annars staðar mundu líka skapa vinnu í þeim landshlutum. Er atvinnustigið á þessu svæði eitthvað verra en í öðrum landshlutum? Nei, það er það ekki. Atvinnustigið er til dæmis verst á Suðurnesjum. Ég hef talað fyrir því að menn ættu að fresta þessari framkvæmd og fara frekar í aðrar brýnni framkvæmdir. Ég keyri oft á ári um Víkurskarð. Vissulega getur leiðin verið varasöm í hálku á veturna, en hið sama má segja um fullt af öðrum leiðum á landinu.

Það sem mér gremst mest í þessu máli er þessar grísku bókhaldsbrellur sem hér er farið með í málinu í gegnum þingið. Þær eru til vansa fyrir þingið og til vansa fyrir fjárlaganefnd og gefa sterka vísbendingu um að stjórnvöld og Alþingi muni ekki og ætli sér ekki með mjög ákveðnum hætti að læra nokkurn skapaðan hlut af hruninu og þeirri mjög svo beygluðu stjórnsýslu sem verið hefur hér við lýði áratugum saman.