140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:00]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. forseta um að hv. þm. Kristján L. Möller mætti gæta hófs í orðavali. Það sem ég hélt fram um þessi göng er einfaldlega úr gögnum sem hafa komið fram um málið á fundum fjárlaganefndar. Þótt hv. þingmaður hafi ekki verið á þeim fundum þá get ég ekki gert að því þó að hann hafi ekki skoðað þau gögn.

Að sjálfsögðu munu menn frekar nota göng en keyra um Víkurskarð í mjög vondu veðri. Að sjálfsögðu, ég mundi gera það og hv. þingmaður líka en það er ekki mælikvarði á hver umferðin um Víkurskarð verður í framtíðinni til að þau standi undir sér sem arðbær framkvæmd. Það er bara merki um almenna skynsemi að keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng ef þau eru til.

Það var ekki mikið um efnislega gagnrýni. Hv. þingmaður sagði að ræðan mín væri vond. Þetta með Norðfjarðargöng hef ég einfaldlega frá FÍB. Það eru upplýsingar sem þeir hafa sent um að stytting á (Gripið fram í.) leiðinni með nýjum Norðfjarðargöngum frá Norðfirði til Eskifjarðar mundi verða umtalsverð og lítið minni en um Vaðlaheiði. Það er þaðan sem þær upplýsingar eru. Hitt eru allt saman réttar upplýsingar.

Það sem skiptir mestu máli og hv. þingmaður minntist ekki á er að forsendurnar fyrir göngunum, arðbærni þeirra, eru ekki til staðar. Það er það sem málið snýst um. Alþingi er að afgreiða þessi göng á röngum forsendum. Það er til vansa. Það eiga menn einfaldlega að viðurkenna og afgreiða þau á réttum forsendum með allt uppi á borðinu sem ríkisframkvæmd.