140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Hæstv. og virðulegur forseti. Nú skulum við sjá til. Ég held að umhverfis- og samgöngunefnd og allt þingið og allir þeir sem koma nálægt samgöngumálum þurfi núna að leggjast yfir málin upp á nýtt. En það sem er rétt í þessu er að ef kosturinn yrði sá að Víkurskarð yrði meira og minna lokað værum við aftur komin með það sem við hurfum frá á áttunda áratugnum, þ.e. veggjaldasamgöngur án valkosts. Þá er ég að tala um Keflavíkurveginn, fyrstu miklu hraðbrautina sem var fjármögnuð eins og við munum með veggjöldum fyrsta áratuginn eða svo, og var feikilega óvinsælt, sérstaklega á Suðurnesjum. (Gripið fram í.) Ef þessi ákvörðun leiðir til þess gerir hún það án þess að það hafi verið rætt í þinginu, án þess að menn hafi tekið meðvitaða afstöðu til þess í þinginu. Það er það skrýtna og furðulega í þessu og það sem ég á erfitt með að sætta mig við. Ég hefði alltaf átt erfitt með það en á sérstaklega erfitt með að sætta mig við það að liðnu árinu 2007 og 2008, á þeim tímum sem við ættum að vera að gera hlutina betur og upp á nýtt.

Svo segi ég það líka að ég efast ekkert um þessa samgöngubót. Ég var ungur drengur í Þingeyjarsýslu og kannast við Vaðlaheiði og heiðarnar og fjöllin milli Þingeyjardala og Eyjafjarðar. Ég fór þangað aftur einmitt um síðustu helgi að gamni mínu og til upprifjunar og til að vekja með mér ljúfsárar minningar um gamla Vaðlaheiðarveginn sem liggur í beygjum og sveigjum upp á heiðina og niður aftur. Ég mæli með þeim vegi sem ferðamannavegi, hann er í þokkalegu lagi. Ég geri sumsé ekki lítið úr þessu sem samgöngubót og vonast innilega til þess að þessi framkvæmd eigi eftir að heppnast í byggðarlegu tilliti.

Það sagði mér hins vegar maður sem ég þekki ágætlega í Eyjafirði og tel að sé mjög vel inni í pólitíkinni og er mjög harður Vaðlaheiðargangamaður, hann sagði við mig að lokum: Ja, þetta er náttúrlega kannski ekki samgöngumál. Þetta er auðvitað mál um að eitthvað fari að gerast hérna næstu (Forseti hringir.) tvö, þrjú árin.