140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom með nokkra áhugaverða vinkla á þetta mál. Einn af þeim var sá að hér á að rukka veggjöld. Það verða þá þeir efnameiri sem hafa efni á því að nýta samgöngumannvirki á Íslandi ef farið verður inn á þessar brautir. Þetta er svolítið klassískt íslenskt dæmi. Það er einhver stefna ríkjandi í ákveðnum málum, svo verður stefnubreyting án þess að það sé rætt. Einhver kemur og býr til nýjan vinkil á eitthvert mál eins og er til dæmis gert við samgönguáætlun í þessu máli. Það er búinn til nýr botnlangi á samgönguáætlun fyrir einhverjar einkaframkvæmdir og geðþóttaverkefni sem leiða jafnvel til þess að almenningur hefur ekki efni á að nota framkvæmdina.

Það segir orðrétt í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um kaflann um áhrif á tekjur ríkissjóðs:

„Þá mun ríkissjóður spara umtalsverða fjármuni vegna minni snjómoksturs á leiðinni um Víkurskarð.“

Þetta er bein yfirlýsing frá fjárlaganefnd um að þetta verði gert. Undir þetta nefndarálit skrifa nú ekki neinir kapítalistar, heldur vinstri mennirnir og hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Höskuldur Þórhallsson. Hér er verið að innleiða veggjaldakapítalisma á Íslandi undir forustu Samfylkingar og vinstri grænna.

Spurningin sem ég vildi spyrja hv. þingmann, sem nefndarmann í samgöngunefnd sem nú er með samgönguáætlun, mál. nr. 7 og 8 á dagskrá, er hvort samgönguáætlun verði ekki kölluð aftur til nefndarinnar og þeim málum velt upp af mikilli alvöru hvort ekki eigi að fara út í svona framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á sömu forsendum. Hér er komin ný aðferð til þess að fjármagna samgöngubætur þar sem umferð (Forseti hringir.) er miklu meiri en Vaðlaheiðargöng og mundu örugglega standa undir sér með einhvers konar skuggagjöldum.