140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég skal ekki segja. Það væri auðvitað ástæða til þess að taka samgönguáætlunina upp í heild þegar nú er komin framkvæmd sem keyrð verður í gegnum þingið án þess að koma þar við sögu. Það er auðvitað hið sorglega í þessu að sú fagnefnd þingsins sem á að fjalla um samgöngur hefur ekki fengið að gera það í þessu máli. Þá sögu mætti rekja hér. Menn muna að nefndin bað sérstaklega um að fá fjárveitingu til þess að láta gera sérstaka skýrslu. Á það var ekki fallist á æðstu stöðum, heldur látin nægja skýrsla sem gerð var annars vegar fyrir fjármálaráðuneytið, sem var auðvitað partur af þessu máli, og hins vegar fyrir Vaðlaheiðargöng hf. að mig minnir.

Ég á ekki von á því að við getum á þeim tíma sem eftir er af þessu þingi byrjað að leggja stokkinn í Miklubraut eða farið í aðrar framkvæmdir sem brýnar eru á höfuðborgarsvæðinu og hugsanlega væri hægt að vinna með þessum hætti. En mér finnst sennilegt að yfirvöld í Reykjavík og íbúar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu hugsi til þessa máls á sama hátt og í öðrum öflugum héruðum, öflugum að því leyti að þar sé klár þjóðhagsleg arðsemi í fyrsta lagi og í öðru lagi að það sé hægt að fjármagna málin, a.m.k. með þeim liðugleik af hálfu þings og ríkisstjórnar að ríkið gangist í ábyrgð og þingið samþykki lánveitingu úr ríkissjóði til framkvæmdanna. Með þeim hætti eru hvaða framkvæmdir sem er frekar auðveldar á Íslandi. Við ættum kannski að gera meira af því og sjá til hvort ríkissjóður er ekki í raun og veru botnlaus og endalaus.