140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að taka upp þykkjuna fyrir einkavæðingu því að þetta er ekki einkavæðing fyrir tíu aura. Það er náttúrlega algjör móðgun við einkavæðingu að kalla þetta einkavæðingu. Þetta er ríkisvæðing. Það eru ríkisaðilar og sveitarfélög sem eru að víla og díla og gera samninga sín á milli og fá til þess styrk frá ríkisaðilum, þ.e. ríkissjóði. Reglur eru brotnar, lög eru brotin o.s.frv., þannig að þetta er hvorki fagleg leið né annað.

Ég benti á það í ræðu minni að þessi leið kann að leiða til þess að menn reyna þetta víðar. Það er ekkert voðalega gaman að bíða mörg ár eftir Dýrafjarðargöngum. Það er ekkert gaman að geta ekki reist nýjan háskóla eða nýja deild hjá Háskóla Íslands. Það er ekkert gaman að þurfa að bíða eftir fjárveitingu þegar vantar pening. Það er ekkert gaman að horfa upp á að verið sé að loka deildum á háskólasjúkrahúsinu o.s.frv. Á sama tíma eiga menn allt í einu peninga fyrir svona göngum.

Þetta getur leitt til upplausnar, en það er bara á ábyrgð þeirra þingmanna sem samþykktu þetta; 31 þingmaður samþykkti þetta, það er bara svo einfalt. Þeir verða að bera ábyrgð á því og þeir verða að svara fyrir það hvað þeir ætla að gera þegar sambærilegt dæmi kemur upp með háskólasjúkrahúsið eða með spítalann á Norðausturlandi eða víðar þar sem verið er að loka deildum. Þannig að auðvitað leiðir þetta til upplausnar.